„Amma mín er fyrsti tölvuleikjaspilari fjölskyldunnar“

Ólafur Hrafn Steinarsson hefur frá blautu barnsbeini verið mikill tölvuleikjaaðdáandi og er einn fremsti talsmaður rafíþrótta á Íslandi.

Í síðasta Settöpp-þætti rafíþróttavefsins fer hann um víðan völl og talar á persónulegri nótum en áður sem varpar nýju ljósi á manninn.

Keypti tölvuleiki frá útlöndum

Stiklan hér að ofan sýnir brot úr umræddum Settöpp-þætti en málshátturinn „Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni“ fangar svo sannarlega umræðuefnið þar sem amma Ólafs var sjálf mikill tölvuleikjaunnandi, en það var hún sem kynnti hann fyrir tölvuleikjum.

„Amma mín er fyrsti tölvuleikjaspilari fjölskyldunnar, hún er svona matríarkinn í fjölskyldunni minni,“ segir Ólafur og bætir við að hún hafi látið afann kaupa tölvuleiki í útlöndum þegar hann fór út á sjó.

Þess má geta að hún var meðal þeirra allra fyrstu á landinu sem keyptu sér heimilistölvu en flestir notuðu þær í reikningagerð og annað slíkt. Amma Ólafs hins vegar hafði annað að gera og notaði tölvuna til þess að spila tölvuleiki eins og t.d. Prince of Persia.

Dýrmæt reynsla sem hjálpar öðrum

Ólafur á því ekki langt að sækja sinn áhuga á tölvuleikjum en þar liggja einnig dýpri ástæður að baki er snerta fráfall föður hans. Þá var Ólafur aðeins ellefu ára gamall. 

Tölvan spilaði stórt hlutverk í sorgarferlinu og reynslan var dýrmæt þar sem hún ýtti undir brennandi áhuga Ólafs á rafíþróttum og hefur hún jafnframt komið mörgum börnum til bjargar.

Í stiklunni efst í fréttinni ræðir hann þessi mál ásamt fleiri áhugaverðum punktum en hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni með því að fylgja hlekknum hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert