Bræðurnir Fannar Logi og Magnús Hinrik hafa skapað sér nafn innan rafíþróttaheimsins hér á landi með farsælum ferli í tölvuleiknum Overwatch undir merkjum Atgeira en þeir eru nýjustu viðmælendur Settöpp-þáttarins á rafíþróttavef mbl.is.
Hér að ofan má horfa á þáttinn í heild sinni og skoða aðstöðuna þeirra. Þar að auki má kynnast þeim ögn betur, hverjir þessir menn eru sem hafa setið á toppnum í senunni um nokkurn tíma.
„Við höfum bara einu sinni lent í þriðja sæti, það var þegar liðið var að klepera og óstöðugt vegna breytinga en síðan þá höfum við verið í fyrsta og öðru sæti,“ segir Fannar Logi, þjálfari Atgeira og bætir við að það hafi verið ómögulegt að vinna Böðla á tímabili.
Þeir urðu Íslandsmeistarar í Overwatch nýlega, þegar þeir unnu úrslitaleikinn gegn NÚ í Almenna bikarnum. Þeir fengu þó bikarinn ekki afhentan og vita í raun ekki hvar hann er niðurkominn.
Bræðurnir eiga einstaklega sterkt samband eins og sést í þættinum og eru býsna nánir eins og sést í þættinum en þeir byrjuðu að spila saman Overwatch árið 2016 í PlayStation 4 þegar Fannar ákvað að kaupa leikinn vegna þess að Magnúsi langaði svo til þess að prófa hann.
Fannar er eldri og hefur staðið þétt við bakið á Magnúsi og segir Magnús hann jafnframt vera sinn helsta stuðningsmann. Hvort sem stuðningurinn berist í spjallglugganum Twitch, á æfingum eða heima fyrir.
„Hann var aðalstuðningsmaðurinn, alltaf í Twitch-spjallinu eitthvað að röfla,“ sagði Magnús en í þættinum kemur fram að rafheiti Magnúsar, avvi, hafi upprunalega verið Fannars.