Í kvöld fóru fram tveir leikir í íslensku úrvalsdeildinni í Counter-Strike þegar NOCCO Dusty mætti TEN5ION í sannkölluðum toppslag og Ármann mætti FH í mikilvægum leik í toppbaráttunni.
Fyrir leikinn voru nokkur lið jöfn að stigum í fyrsta sæti deildarinnar en þar á meðal voru það liðin sem mættust í fyrri leik kvöldsins, NOCCO Dusty og FH. Bæði lið höfðu fyrir viðureignina einungis tapað einum leik og því var ljóst að þarna voru tvö af betri liðum landsins mætt og keppt var á kortinu Anubis í þetta sinn. Það var þó ljóst strax að Dusty-menn voru ekkert að grínast í kvöld og lokatölur í leiknum urðu 16:3. Dusty er því aftur á toppnum en atkvæðamestu leikmenn liðsins voru þeir StebbiC0C0 og EddezeNNN, báðir með 19 fellur.
Í seinni leik kvöldsins mættust Ármann og FH en Ármann var jafnt að stigum með þremur öðrum liðum í fyrsta sæti deildarinnar fyrir viðureignina. FH-ingar hafa þó farið ágætlega af stað í ár og héldu því áfram með sigri í kvöld á toppliðinu. FH bar sigur úr býtum 16:13 eftir æsispennandi viðureign þar sem leikmaður FH, „WZRD“, fór á kostum og náði 35 fellum í leiknum.
Eftir leiki kvöldsins er NOCCO Dusty með tveggja stiga forskot á toppnum en Þórsarar geta jafnað þá að stigum á fimmtudag er umferðin heldur áfram.