Þórarinn Þórarinsson
Fjórða umferð Ljósleiðaradeildarinnar í Counter Strike hófst í gærkvöld með tveimur leikjum þar sem Höttur sigraði Venus 0:2 og Veca tapaði fyrir Ármanni 0:2.
Tómas Jóhannsson og Jón Þór Hermannsson lýstu viðureign Ármanns og Veca í beinni útsendingu þar sem ekkert vantaði upp á spennuna því Veca lét lið Ármanns heldur betur hafa fyrir sigrum í báðum leikjunum.
Staðan í Ljósleiðaradeildinni þegar þrír leikir eru eftir er þannig að taplausir Ármenningar eru komnir í 1. sætið, Dusty er í 2. sæti og Þór í því þriðja en Veca og Saga halda enn 4. og 5. sæti.
Stigataflan á þó líklega eftir að taka umtalsverðum breytingum annað kvöld þegar umferðinni lýkur með þremur leikjum þar sem Dusty mætir Rafik, ÍA og Þór takast á og í beinni lýsingu Tómasar og Jóns Þórs eigast síðan við Kano og Saga.