„Ég er í sjokki eftir þennan leik“

Rósa Björk lýsti leikjum 3. umferðar ELKO-Deildarinnar í Fortnite í …
Rósa Björk lýsti leikjum 3. umferðar ELKO-Deildarinnar í Fortnite í beinni útsendingu og sagðist einfaldlega vera í sjokki eftir seinni leikinn.

Þriðja um­­­ferð ELKO-Deildarinnar í Fortni­te fór fram á mánu­­dags­­kvöld og lauk þannig að i­Kristoo er kominn með 141 stig sem duga honum til að ná topp­sætinu af denas 13 sem er í 2. sæti með 135 stig.

„Ég er í sjokki eftir þennan leik,“ sagði Rósa Björk um viðburðaríkan seinni leik umferðarinnar en hún og Aron Fannar lýstu umferðinni í beinni útsendingu. 

Þá kvað Rósa upp þann dóm að iKristoo hefði staðið sig „sjúklega vel“ þegar ljóst var að honum hafði, í bili að minnsta kosti, tekist að stela 1. sæti deildarinnar af denasi.

Aðeins sex stig skilja þá iKristoo og denas13 að í tveimur efstu sætunum en á eftir þeim koma ElkoDeild Emil með 77 stig, Relax Lester með 59 stig og Marcixtwitch með 11 stig.

Áður en leikar hófust taldi Aron sér óhætt, eftir aðeins tvær umferðir, að spá denas sigri í deildinni. Hann sýndi síðan strax í fyrsta leik kvöldsins fram á að einhver innistæða er fyrir þessum spádómi Arons þar sem hann stóð uppi sem sigurvegari með 33 stig.

iKristoo kom, hins vegar, sá og sigraði seinni leik kvöldsins og sló fellumet mótsins með hvorki meira né minna en tíu fellum. Þessar sviptingar á toppnum breyttu þó engu um að Aron stendur enn við spá sína um að denas muni sigra mótið en þau Rósa voru einnig sammála um að iKristoo muni ná mjög langt í ELKO-Deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert