Ís­land lenti á sænskum vegg

Jasmín Joan „Jazzycakes“ Rosento og hinar í íslenska liðinu sýndu …
Jasmín Joan „Jazzycakes“ Rosento og hinar í íslenska liðinu sýndu fín tilþrif, sem dugðu þó ekki til, í leiknum gegn Svíþjóð.

Íslenska kvennalandsliðið í Counter Strike þurfti að sætta sig við 2:0 tap gegn því sænska í fyrri leik liðsins á Norðurlandamótinu 2024 í dag. 

Allar sýndu íslensku stelpurnar fína taka í viðureigninni gegn þeim sænsku en það dugði ekki til gegn miklum mun leikreyndari andstæðingunum sem voru einfaldlega töluvert betri á vígvellinum.

Íslenska liði er skipað fyrirliðanum Árveigu Lilju Bjarnadóttur og Jasmin Joan Rosento, sem kepptu báðar á mótinu í fyrra, og Guðríði Hörpu Elmarsdóttur, Sunnu Karítas Rúnarsdóttur og Rósu Björku Einarsdóttur sem keppa nú á sínu fyrsta Norðurlandamóti.

Á meðan sænska liðið afgreiddi það íslenska sigruðu ríkjandi meistararnir frá Finnlandi danska liðið sem fékk þar með dálitla jarðtengingu eftir sigurinn á stelpunum okkar í gær.

Næstu leikir hefjast klukkan 14 en þá mæta stelpurnar okkar finnsku mulningsvélinni á meðan danska og sænska liðið takast á en fyrir þessa leiki er íslenska liðið án stiga eftir tvo tapleiki en lið Danmerkur, Finnlands og Svíþjóðar öll með 3 stig.

Hægt er að fylgjast með leikjum íslenska kvennalandsliðsins á Norðurlandamótinu í beinu streymi á ýmsum veitum Rafíþróttasambands Íslands sem finna má HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert