Finnska kvennalandsliðið er Norðurlandameistari í Counter Strike annað árið í röð eftir 2:0-sigur á liði Danmerkur í úrslitaleiknum í gær.
Finnska mulningsvélin var óstöðvandi á Norðurlandamótinu 2024 í Svíþjóð um helgina, sigraði allar viðureignir sínar og varði Norðurlandameistaratitillinn eins sannfærandi og mögulegt er.
Danska liðið endaði, rétt eins og í fyrra, i 2. sætinu en eftir sigra á liðum Íslands og Svíþjóðar mætti liðið aftur ofjörlum sínum og tapaði tvöfalt, 13:6 í Nuke og 13:6 í Inferno, í úrslitaleiknum gegn Finnlandi.
Finnland er með níu stig í 1. sæti, Danmörk er í 2. sæti með sex stig, Svíþjóð með þrjú stig í 3. sæti og lið Íslands rekur lestina með núll stig í 4. sæti. Þó má segja að stelpurnar okkar hafi farið upp um sæti milli ára því norska liðið, sem var í því fjórða í fyrra, tók ekki þátt að þessu sinni.