Þórarinn Þórarinsson
Tveir efstu keppendurnir í ELKO-Deildinni í Fortnite, Denas Kazulis (denas 13) og Kristófer Tristan (iKristoo), voru sjálfum sér samkvæmir í 8. umferð og skiptu sigrunum í leikjunum tveimur á milli sín.
Fyrri leikurinn var bráðfjörugur og mikið gekk á undir lokin áður en Denas landaði sigrinum. Kristófer kom hins vegar, venju samkvæmt, öflugri í seinni leikinn sem hann vann með átta fellum og náði 1. sætinu af Denasi.
Denas var í fyrsta sæti þegar leikar hófust en þá skildi aðeins eitt stig á milli hans og Kristófers sem endaði með 380 stig á móti 367 stigum Denasar.
Kristófer byrjar því 9. umferð eftir viku með 13 stiga forskot á höfuðandstæðinginn. Emil Víkingur (Too Fast Emil) heldur síðan 3. sæti en er þó langt á eftir með 202 stig.
Ólafur Hrafn Steinarsson lýsti umferðinni ásamt þeim Aroni Fannari og Gunnari Birni og ekki verður af lýsendunum tekið að þeir settu skemmtilegan svip á keppniskvöldið með því að taka forskot á hrekkjavökusæluna.
Ólafur Hrafn mætti til leiks sem risastór banani á meðan Aron skellti sér í pylsubrauð með sinnepi en Gunnar Björn gætti þess að halda tengingu við tölvuleikjaheiminn og sat í sófanum sem Marió-bróðirinn Luigi.