Öflugir FH-ingar sigruðu í Fortni­te

Þorlákur Gottskálk var tvöfaldur sigurvegari í Fortnite á mótinu. Í …
Þorlákur Gottskálk var tvöfaldur sigurvegari í Fortnite á mótinu. Í einliðaleik og aftur með Brimi Leó í tvíliðaleik. Þeim félögum leiddist síðan ekkert að taka við verðlaununum úr hendi barnamálaráðherra. Ljósmynd/Atli Már

„Ég er ótrúlega ánægður og bara gæti ekki verið stoltari af þeim,“ segir þjálfari FH-inganna Þorláks Gottskálks Guðfinnssonar og Brimis Leós Bjarnasonar sem sigruðu yngri flokk í tvíliðaleik í Fortnite á ungmennamóti RÍSÍ um helgina.

Fyrri hluti haustmóts Rafíþróttasambands Íslands fór fram í Next Level Gaming í Egilshöll um helgina en þá kepptu krakkar í yngri flokki, 8-12 ára, í tölvuleikjunum vinsælu Fortnite og Roblox. 

Segja má að fjörið hafi náð hámarki á sunnudeginum þegar Fortnite átti sviðið og keppt var til úrslita bæði í ein- og tvíliðaleik en þegar upp var staðið urðu kátir keppendur frá Breiðabliki og FH áberandi á verðlaunapallinum.

Sigursælir FH-ingar

FH-ingurinn Þorlákur Gottskálk Guðfinnsson stóð uppi sem sigurvegari bæði í einliðaleik og tvíliðaleik, ásamt félaga sínum Brimi Leó Bjarnasyni.

Þorlákur Gottskálk og Brimir Leó fögnuðu hressilega við góðar undirtektir …
Þorlákur Gottskálk og Brimir Leó fögnuðu hressilega við góðar undirtektir keppinautanna og Ásmundar Einars sem klappaði keppendum lof í lófa eftir að hafa verðlaunað þá fyrir árangurinn.

Rafíþróttakapparnir ungu voru að vonum kátir eftir verðlaunaafhendinguna og þegar þeir voru spurðir hvernig þeim fannst að taka við verðlaunum úr hendi Ásmundar Einars Daðasonar barnamálaráðherra var svarið stutt og laggott: „Það var bara gaman.“ 

Alltaf gaman

Þorlákur og Brimir sögðust að sjálfsögðu vera mjög ánægðir með úrslitin en viðurkenndu með semingi að helstu keppinautarnir úr Breiðabliki hafi verið hættulegir. Þetta hafi því verið „smá erfitt“ og stundum staðið tæpt.

Sigurvegararnir í tvíliðaleik á ungmennamótinu í september, Blikarnir Fil­ip Kosta …
Sigurvegararnir í tvíliðaleik á ungmennamótinu í september, Blikarnir Fil­ip Kosta og Tóm­as Hrafn, veittu FH-ingunum verðuga samkeppni. Ljósmynd/Atli Már

Þorlákur Gottskálk tekur keppnisgrein sína mjög alvarlega og segist bara spila Fortnite og láta aðra leiki alveg eiga sig. Félagarnir sögðu síðan að næst á dagskrá hjá þeim væri fyrst og fremst bara að halda áfram að vinna á mótum og bættu við einum rómi að það væri alltaf mjög gaman að keppa.

Úrslit í einliðaleik Fortnite:

1 Þorlákur Gottskálk Guðfinnsson (FH) 149 stig

2 Filip Kosta (Breiðablik) 84 stig

3 Brimir Leó Bjarnason (FH) 75 stig

Setið var við allar tölvur í Egilshöllinni og einbeitingin leyndi …
Setið var við allar tölvur í Egilshöllinni og einbeitingin leyndi sér hvergi. Ljósmynd/Atli Már

Úrslit í tvíliðaleik Fortnite:

1 Þorlákur Gottskálk Guðfinnsson og Brimir Leó Bjarnason (FH) 139 stig

2  Filip Kosta og Tómas Hrafn Gunnarsson (Breiðablik) 133 stig

3 Benedikt Nóel Benediktsson og Alexander Orri Eiríksson (Fylkir) 84 stig

„Ég er ótrúlega ánægður með þessa stráka og bara gæti ekki verið stoltari af þeim þegar ég sé þá blómstra svona,“ segir Patrekur Gunnlaugsson, þjálfari Þorláks og Brimis, hæstánægður með sína menn. 

„Ég byrjaði í þessu starfi í janúar og þeir eru bara búnir að breytast þroskast ekkert eðlilega mikið og spila gríðarlega vel saman. Þeir eru áhugasamir og mæta alltaf á æfingar en hafa fyrst og fremst gaman að þessu.“

Patrekur Gunnlaugsson hafði í mörg horn að líta um helgina …
Patrekur Gunnlaugsson hafði í mörg horn að líta um helgina en hann er yfirþjálfari hjá bæði FH og Fylgi og gat því gengið af velli stoltur og glaður. Ljósmynd/Atli Már

Patrekur hafði í nógu að snúast á mótinu því hann er yfirþjálfari í rafíþróttum hjá bæði FH og Fylki. Hann segir í störfum sínum finna vel fyrir því hversu áhuginn á rafíþróttum er stöðugt að aukast. „Þetta fer bara stækkandi og nú eru komnir biðlistar hjá mér og ég þarf bara að fara að ráða fleiri þjálfara því ég hef ekki fleiri tíma í sólarhringnum.“

Patrekur bætir við að rafíþróttastarfið sé ekki síður gefandi fyrir þjálfarann en krakkana og hann gæti ekki hugsað sér neitt sem hann vildi frekar gera. „Þetta er alveg það sem mig langar að gera. Ég er sjálfur búinn að vera að keppa í Counter Strike í mörg ár en lærði að þjálfa leiki eins og Fortnite hjá Esports Coaching Academy.“ 

Ljósmynd/Atli Már

Ungmennamótið heldur áfram í Egilshöll 9.-10. nóvember þegar eldri flokkur, 13-16 ára, tekur sviðið og keppir meðal annars í Valorant og Fortnite. Um 140 krakkar hafa skráð sig til leiks á mótinu. 70 kepptu um helgina í yngri flokkum og búist er við sama fjölda hjá þeim eldri um næstu helgi.

Um 70 krakkar frá 8 til 12 ára fylltu Next …
Um 70 krakkar frá 8 til 12 ára fylltu Next Level Gaming í Egilshöll um helgina og voru sjálfum sér og liðum sínum til mikils sóma. Ljósmynd/Atli Már
Samspil hugar og handa var í góðum takti þegar músunum …
Samspil hugar og handa var í góðum takti þegar músunum var beitt af nákvæmni skurðlæknisins. Ljósmynd/Atli Már
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert