Úrslitakeppni Ljósleiðaradeildarinnar í Counter Strike er í fullum gangi og eftir viðureign gærkvöldsins í sex liða úrslitum liggur fyrir að Veca heldur áfram og mætir Dusty í næstu viku en Kano er úr leik.
Fyrir úrslitakeppnina var Veca í þriðja sæti og Kano í því sjötta. Byrjunin var þó brött hjá Veca í gær og útlitið er ekki gott eftir fyrsta leikinn sem Kano vann 13:11.
Þetta breytti þó engu um að liðsmenn Veca gerðu það sem gera þurfti, sneru stöðunni við og kláruðu dæmið með 2:1-sigri.
Baráttan heldur síðan áfram í næstu viku þegar Ármann mætir toppliði Þórs á þriðjudagskvöld og á fimmtudagskvöldinu er komið að Veca og Dusty í fjögurra liða úrslitunum.
Sigurvegarar næstu viku mætast síðan á stóra úrslitakvöldinu í Arena laugardaginn 16. nóvember þegar loks fæst úr því skorið hvaða lið landar meistaratitlinum í Ljósleiðaradeildinni.