„Ég held enginn hafi búist við þeim þvílíku gæðum sem Arcane býr yfir, síst af öllu League of Legends spilarar,“ segir Arnar Tómas Valgeirsson, samfélagsmiðlastjóri hjá Porcelain Fortress, um Netflix-þættina sem státa nú af hæstu einkunn sem sjónvarpsþættir hafa fengið síðan mælingar hófust á Internet Movie Database.
„Þættirnir voru lengi í bígerð en fóru langt fram úr þeim væntingum sem ég hafði til þeirra. Sagan, teiknistíllinn, tónlistin, persónusköpunin. Allt sprengir þetta skalann þegar kemur að fullorðins teiknimyndum,“ heldur Arnar Tómas, sem lýsir sér sem League of Legends fíkli á batavegi, áfram.
Allir þættirnir níu í öðrum árgangi Arcane hafa náð þeim einstaka árangri að dúxa með yfir 9 í einkunn á Imdb.com. League of Legends spilarar fara því eðlilega margir hverjir sigri hrósandi um samfélagsmiðla þar sem þeir telja að nú hafi loksins fengist staðfest að Arcane hafi hingað til í raun verið vanmetnir.
„Tilhlökkunin hjá aðdáendum fyrir aðra þáttaröð var skiljanlega mikil og eins og sést hefur á einkunnagjöfinni þá virðast flestir mjög ánægðir,“ segir Arnar Tómas sem skilur sig þó aðeins frá frá fjöldanum núna, því hann var hrifnari af fyrri seríunni.
„Persónulega finnst mér önnur sería vera áberandi lakari en sú fyrsta, sér í lagi þegar kemur að sögunni þar sem allt of miklu var troðið inn. Samt algjört augnakonfekt og vel áhorfsins virði.“
Fókusinn á Vi og Jinx
Netflix byrjaði að streyma Arcane 2021 og þar eru systurnar Vi og Jinx í forgrunni en þættirnir rekja í raun forsögu þessarra kunnu hetja úr leiknum og hverfast um átökin í samskiptum þeirra þegar þær taka ólíka afstöðu á átakatímum og berjast hvor með sinni fylkingunni.
Þættirnir áttu sér, í krafti League of Legends, í raun tilbúinn aðdáendahóp áður en Netflix byrjaði að streyma þeim en fóru þó mögulega full hljóðlega af stað í upphafi. Nú hafa þeir aftur á móti sprungið út með slíkum hvelli að hróður þeirra bergmálar um samfélagsmiðlana eftir að stakir þættir hafa verið að fá frá 9,1 upp í 9,8 en öllu nær tíunni verður vart komist.
Tölurnar tala líka sínu máli og segja í raun alla söguna sem aðdáendur endursegja nú hástöfum, hver með sínu lagi, á samfélagsmiðlum þar sem orð á borð við þessi hafa verið látin falla:
„Ég horfði með 0 væntingar. Ég spilaði League fyrir mörgum árum en hef ekki haft áhuga á neinu honum tengdu í áraraðir en samt náðu þættirnir mér gjörsamlega. Ég bjóst við einhverri léttvægri vitleysu og það kom mér verulega á óvart hversu langt þeir teygja sig inn í drungann og taka á þungum umfjöllunarefnum.“
„Loksins gerðist það: Kvikmyndaaðlögun á tölvuleik sem er ekki glötuð.“