Klutz landaði þriðja meistaratitlinum

Liðskonur Klutz eyddu öllum efasemdum um hverjar eru bestar í …
Liðskonur Klutz eyddu öllum efasemdum um hverjar eru bestar í Míludeildinni í Valorant og hömpuðu sínum þriðja meistaratitli í gærkvöld. Ljósmynd/Þórlindur

Öflugt lið Klutz er Míludeildarmeistari í Valorant kvenna 2024 eftir að hafa lagt Jötunn Valkyrjur 3:1 í úrslitaviðureign Míludeildarinnar í Arena í gærkvöld.

Spennan fyrir úrslitaleikinn var mikil enda ljóst að hart yrði barist þótt á brattan yrði að sækja hjá Valkyrjum gegn Klutz, sem á pappírunum var og, eins og kom í ljós í gær, er besta lið Míludeildarinnar og það segir sína sögu að með sigrinum á föstudagskvöld er Klutz orðið þrefaldur kvennadeildarmeistari í Valorant.

Daníel og Mist voru í góðum gír þegar þau lýstu …
Daníel og Mist voru í góðum gír þegar þau lýstu úrslitunum í beinni útsendingu enda bæði ánægð með frmmistöðu liðanna og Míludeildina eins og hún leggur sig. Skjáskot/RÍSÍ

Mótastjórarnir Mist Reykdal Magnúsdóttir og Daníel Máni Óskarsson, sem lýstu úrslitaviðureigninni í beinni útsendingu, voru sátt við frammistöðu beggja liða og lýstu einnig ánægju sinni með deildina almennt í ár.

Enda hefur Míludeildin aldrei verið jafn umfangsmikil en átta lið skráðu sig til leiks og upphæð verðlaunafjárins markaði einnig ákveðin tímamót.

„Peningalega er þetta næst stærst og það sem er örugglega mest töff við þetta er að þetta er örugglega í fyrsta skipti sem rafíþróttadeild, önnur en Counter Strike, er með yfir milljón í verðlaunafé,“ sagði Daníel í upphafi tímabilsins í haust og  benti á að ekki þyrfti að hafa mörg orð um hversu jákvætt þetta er fyrir rafíþróttir kvenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert