Hjörvar Steinn Grétarsson lagði í kvöld Helga Ólafsson, frekar auðveldlega, með 5,5 vinningum á móti hálfum í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í netskák.
Hjörvar Steinn og Helgi tókust á um Íslandsmeistaratitilinn í netskák í Arena í kvöld. Flestir, þar á meðal skákskýrendur mótsins þeir Björn Ívar Karlsson og Ingvar Þór Jóhannesson, höfðu búist við jöfnu einvígi en raunin reyndist síðan verða hálfgerð einstefna þar sem Helgi sá vart til sólar.
Skákgyðjan sneri gæfuhjólinu gegn Helga strax í fyrstu skákinni sem hann tapaði eftir að hafa leikið af sér drottningu. Eftir það héldu Hjörvari engin bönd og hann var fljótlega kominn í vænlega stöðu 4:0.
Helgi virtist síðan vera að finna fjölina sína en komst þó ekki lengra en svo að samið var um jafntefli í fimmtu skákinni og Hjörvar gulltryggði síðan titilinn með sigur í þeirri næstu.
Nýi Íslandsmeistarinn gaf sér smá tíma, áður en hann tók við verðlaununum, til að ræða í beinni útsendingu við þá Björn Ívar og Ingvar Þór. Þar taldi hann víst að drottningarmissirinn í fyrstu skákinni hafi sett Helga út af laginu og hann hafi ekki þekkt hann sem sama skákmann eftir þá skák.
Þegar talið barst að netskák almennt sagðist hann telja framtíð skákarinnar liggja á netinu og að hann gerði ráð fyrir að innan fimm til sex ára yrði miklu meira um mót sem þetta.
Þá bætti hann við að með Íslandsmótinu núna væri í raun, í krafti frumkvæðis Rafíþróttasambands Íslands, verið að ryðja brautina inn í framtíðina.