„Sturlaður“ endasprettur hjá Kristófer

Denas Kazulis vann deildina í Fortnite í síðasta mánuði og …
Denas Kazulis vann deildina í Fortnite í síðasta mánuði og fékk loks að hampa verðlaununum í gærkvöld. Ljósmynd/Atli Már

Deildakeppninni í Fortnite lauk á laugardagskvöld þegar sigurvegari deildarinnar, Denas Kazulis, tók við verðlaunum sínum. Höfuðandstæðingur hans á tímabilinu, Kristófer Tristan, rétti hins vegar sinn hlut með því að stela senunni og sigra báða leiki kvöldsins með aðdáunarverðum tilþrifum.

Fremstu Fortnite spilarar landsins komu saman á úrslitakvöldi deildarinnar í Fortnite í Arena á laugardagskvöld og þar létu stjörnur tímabilsins, Denas og Kristófer, sig að sjálfsögðu ekki vanta.

Þeir voru fljótir að stinga aðra keppendur af á keppnistímabilinu þar sem þeir skiptu sigrum í umferðum deildarinnar nokkuð jafnt á milli sín og höfðu reglulega sætaskipti á toppnum.

Einvígi þeirra lauk í tíundu og síðustu umferð tímabilsins með naumum sigri Denasar 428 stig á móti 415 stigum Kristófers. Þeir mættust enn eina ferðina í gærkvöld og segja má að þeir hafi haldið sig við helmingaskiptaregluna því að þessu sinni náði Denas sér ekki á strik en Kristófer var aftur á móti í banastuði.

Fyrir leik sagðist Denas annað hvort ætla að vinna  viðureign kvöldsins eða enda á botninum en hann rétt náði að mæta, nýkominn upp úr lauginni á Norðurlandameistaramóti í sundi í Vejle í Danmörku.

Denas var vitaskuld víðs fjarri botninum í gær en tókst ekki að blanda sér í toppbaráttuna þar sem Kristófer var í banastuði og sigraði báða leiki úrslitakvöldsins með slíkum glæsibrag að Ólafur Hrafn Steinarsson, sem lýsti leikjunum, talaði um „sturlaða frammistöðu,“ hans á lokakvöldinu.

Hvorugur þeirra fór þó tómhentur heim þar sem Denas tók við verðlaunum fyrir 1. sæti deildarinnar og Kristófer fyrir 2. sætið auk verðlauna sem sigurvegari úrslitakvöldsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert