Músin felldi drottningu Helga

Óheppnin elti Helga Ólafsson í úrslitaeinvíginu á móti Hjörvari Steini. …
Óheppnin elti Helga Ólafsson í úrslitaeinvíginu á móti Hjörvari Steini. Tölvumúsin kostaði hann drottningu í fyrstu skákinni og þar með virtust úrslitin eiginlega ráðin.

„Miðað við taflmennskuna hefðu kannski 6:4 verið sanngjarnari úrslit,“ segir alþjóðlegi skákmeistarinn Björn Þorfinnsson um úrslitaviðureign Hjörvars Steins Grétarssonar og Helga Ólafssonar á Íslandsmótsins í netskák sem Hjörvar vann í gærkvöld með 5,5 vinningum á móti hálfum.

Björn Þorfinnsson stýrði skákveislu gærkvöldsins og segir úrslit netskákmótsins ekki …
Björn Þorfinnsson stýrði skákveislu gærkvöldsins og segir úrslit netskákmótsins ekki gefa alveg rétta mynd af taflmennsku þeirra Hjörvars og Helga.

Björn, sem sjálfur féll úr keppni í undanúrslitum mótsins eftir tap gegn Helga, mætti óbugaður til leiks á úrslitakvöldið í Arena í gær þar sem hann tók að sér veislustjórn á mótsstað auk þess sem hann var álitsgjafi í beinu útsendingunni frá einvígi Hjörvars Steins og Helga.

„Sennilega hafði veðurofsinn þau áhrif að húsnæðið sprakk kannski ekki beint út af ásókn en það var gaman að sjá marga af sterkustu skákmönnum landsins á vettvangi,“ segir Björn sem sjálfum sér samkvæmur lék á als oddi í skákveislu gærkvöldsins.

Músin felldi drottningu

„Þá mætti fjölskylda Hjörvars Steins til að veita kappanum andlegan stuðning og aldrei að vita nema að það hafi skipt miklu máli,“ heldur Björn áfram og bætir við að yfirburðir Hjörvars Steins hafi vissulega komið örlítið á óvart en gefi kannski ekki rétta mynd af taflmennskunni í einvíginu: 

„Það má eiginlega segja að óheppnin hafi elt Helga í einvíginu. Hann lenti í mistökum með tölvumúsina í fyrstu skákinni eftir frábæra skák og missti drottningu fyrir ekkert. 

Björn segir Hjörvar Stein verðskuldaðan Íslandsmeistara en hér afhendir Gunnar …
Björn segir Hjörvar Stein verðskuldaðan Íslandsmeistara en hér afhendir Gunnar Björnsson, forseti Skáksambandsins, honum verðlaunabikarinn.

Næstu skákir tefldi Helgi að mörgu leyti fantavel en Hjörvar Steinn var ótrúlega seigur að tefla traust framan af og þegar farið var að saxast á tímann þá réðst hann yfirleitt til atlögu sem olli Helga miklum vandræðum.“

Björn segir að miðað við taflmennskuna hefði 6:4 kannski verið sanngjarnari úrslit. „En það verður ekki af Hjörvari Steini tekið að tefldi afar vel og af miklum klókindum og krafti. Hann er verðskuldaður Íslandsmeistari,“ segir veislustjórinn og alþjólegi meistarinn Björn Þorfinnsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert