Míludeildinni í Valorant kvenna lauk á föstudaginn með spennandi úrslitakeppni og heljarinnar veislufjöri þar sem gleðin var allsráðandi þótt vissulega færu sumir, ekki síst keppendur, í gegnum allan tilfinningaskalann í mikilli rússíbanareið.
Áhuginn á Míludeildinni, einu kvennadeild landsins í rafíþróttum, hefur aldrei verið meiri en en átta lið og 50 konur skráðu sig til leiks í upphafi tímabilsins sem lauk með gleði og glæsibrag í Arena á föstudagskvöld.
Daníel Máni Óskarsson og Mist Reykdal Magnúsdóttir héldu utan um mótið í ár auk þess sem þau hafa staðið vaktina í beinu lýsingunum frá viðureignum deildarinnar af léttleikandi einurð og festu.
Þau létu sig að sjálfsögðu ekki vanta í myndver Rafíþróttasambands Íslands á úrslitakvöldinu þar sem þau lýstu og greindu lokabardaga Klutz og Jötunn Valkyrja og fóru að leik loknum hvergi leynt með ánægju sína með bæði frammistöðu liðanna og keppnistímabilið í heild.
Daníel sagði við upphaf mótsins í haust að upplagt hefði þótt að byrja á að bjóða upp á kvennadeild í Valorant þar sem kynjaskipting spilara sé nánast jöfn á heimsmælikvarða. „Sem er bara magnað fyrir tölvuleik. Valorant er líka rosalega litríkur, dálítið teiknimyndalegur og höfðar þannig kannski meira til yngra fólks.“
„Þetta er algert met. Við erum svo vön því að sjá þrjú til fjögur lið keppa og vorum kannski að búast við svona fimm liðum en svo eru þau bara átta sem er alveg klikkað,“ sagði Mist við sama tækifæri og bætti við:
„Ég held forvitnin sé sérstaklega mikil þar sem konur hafa alltaf verið í svolitlum minnihluta tölvuleikjaspilara og fólki finnist áhugavert að það sé komin heil deild bara fyrir konur.“
Úrslitaviðureigninni lauk með 3:1 sigri Klutz á Jötunn Valkyrjum og liðið þar með orðið þrefaldur kvennadeildarmeistari í Valorant. Þegar keppendurnir höfðu stigið af tilfinningarússíbananum og tekið við verðlaunum sínum hélt gleðin áfram eins og ekkert hefði í skorist og stóð langt frameftir kvöldi.