Þórarinn Þórarinsson
Kuti er deildarmeistari Litlu-Kraftvéladeildarinnar í Dota 2 eftir frækilegan 3:1 sigur á TSR Akademíunni í gærkvöld. Úrslitin réðust í hörkuspennandi fjórða leik þar sem lengst af gat brugðið til beggja vona en TSR hafnaði í öðru sæti og Hendakallarnir í því þriðja.
Kuti og Akademían mættust fyrir framan fullan sal áhorfenda í Arena þar sem spennan náði hámarki í lokaleiknum sem lýsendur í beinu útsendingarinnar sögðu „rosalegan lokaleik“, sem jafnframt hefði verið svo „sturlaður“ að þeir stóðu eftir í spennufalli með gæsahúð.
TSR hafði lengst af yfirhöndina og það reyndist lýsendum nokkur ráðgáta hvernig liðinu tókst að glutra forystunni niður. Eitthvað sem þeir töldu „gjörsamlega galið“ og ekki furðuðu þeir sig síður á því hvernig liðsmenn Kuta hefðu taugar í að halda þetta út og snúa leiknum við á ögurstundu.
Kuti stóð því að lokum uppi sem deildarmeistari í „bumbubolta“ deildarinnar og því var fagnað við undirleik Ðe lónlí blú bojs að bikarinn færi nú heim í Búðardal þar sem Kuti virðist eiga sitt varnarþing.