Dota 2: „Náum alltaf að toppa okkur“

Mótastjórinn Hrannar Marel er mjög ánægður með Kraftvéladeildina í Dota …
Mótastjórinn Hrannar Marel er mjög ánægður með Kraftvéladeildina í Dota 2 á árinu sem er að líða og þar sem undanfarin ár hafa verið hvert öðru betra fara hann og félagar hans fullir eftirvæntingar inn í nýtt rafíþróttaár.

„2024 var bara virkilega gott og við höfum fengið gríðarlega mikið hrós. Bæði bara fyrir mótið almennt og þessa pælingu að láta reyndustu spilarana skila reynslu sinni áfram með því að þjálfa liðin í Litlu-Kraftvéladeildinni,“ segir mótastjórinn Hrannar Marel Svövuson um árið í Dota 2.

„Við erum með ágæta reynslu og höfum verið að halda mót í mörg ár. Bæði bara sjálfir og í samstarfi við RÍSÍ. Við vorum með stóru deildina sjálfir síðasta vor en hófum síðan aftur samstarf við RÍSÍ og vorum með Litlu-Kraftvéladeildina og svo er það Stóra-Kraftvéladeildin eftir áramót.“

Litlu-Kraftvéladeildinni lauk um miðjan desember með uppskeruhátíð Dota 2 samfélagsins og úrslitaleik þar sem Kuti tryggði sér deildarmeistaratitilinn með sigri á TSR Akademíunni.

„Mótið stóð yfir í rétt rúma þrjá mánuði og úrslitin gengu bara virkilega vel fyrir sig. Þetta voru flott úrslit, spennandi leikir, mjög mikil stemning og fullt af fólki sem mætti,“ segir Hrannar og víkur síðan nánar að tilkomu litlu deildarinnar.

„Hún er kölluð Litla-Kraftvéladeildin vegna þess að bestu spilararnir máttu ekki taka þátt og mótið aðallega hugsað fyrir aðeins reynsluminni spilara.“ Þeir bestu, „hakkavélarnar“ svokölluðu hafi hins vegar flestir tekið að sér að þjálfa liðin á mótinu áður en þeim verður sjálfum sleppt lausum eftir áramót eftir að hafa skilað reynslu sinni áfram á þennan hátt.

„Það gekk bara virkilega vel,“ segir Hrannar um þessa tilbreytingu sem varð til þess að hleypa heilmiklu lífi í tímabilið. „Við erum vanalega með tvær deildir á ári og höfum haldið okkur við það síðustu ár en gerðum samt núna fullt af nýjum hlutum, sem langflestir gengu virkilega vel, þannig að við náum svona einhvern veginn alltaf að toppa okkur.“

Hrannar bætir við að með þennan mikla byr í Dota-seglunum geti hann og félagar hans í mótastjórninni ekki annað en siglt gríðarlega spenntir til móts við árið 2025. „Fyrirkomulagið er ekki alveg komið á hreint ennþá en það liggur allaveganna fyrir núna að næsta deild, sem hefst í lok janúar eða byrjun febrúar, verður bara í klassíska formattinu þar sem öll lið sem vilja mega taka þátt.“

Fram­leiðslu­teymi Litlu-Kraft­véla­deild­ar­inn­ar þeir Hrann­ar Mar­el, Berg­ur og Snorri.
Fram­leiðslu­teymi Litlu-Kraft­véla­deild­ar­inn­ar þeir Hrann­ar Mar­el, Berg­ur og Snorri.

Þegar Hrannar er spurður hvað standi upp úr í minningunni hjá honum persónulega frá rafíþróttaárinu 2024 nefnir hann reglulegan hitting hans og félaganna í mótastjórninni á keppnistímabilinu.

„Við erum þrír félagar sem erum í mótstjórn og erum mest hérna inni í stúdíói og það er búið að vera virkilega skemmtilegt að vera hérna með þeim einu sinni í viku. 

Ég held annars að það megi segja að þetta samfélag okkar sé frekar lítið og þétt þannig að flestir þekkjast frekar vel en síðan fengum við bara fullt af nýjum andlitum inn í samfélagið og það var líka virkilega gaman að hitta það fólk á úrslitunum og setja svona aðeins andlit við nöfnin sem maður hefur bara séð í netheimum. En fyrst og fremst stendur upp úr hjá mér hvað það er búið að vera virkilega gaman að vera hérna í stúdíóinu í Arena vikulega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert