Er kannski bara með pirrandi stíl

Dagur Ragnarsson sigraði undankeppnina um þátttökuréttinn í netskákmótinu Síminn Invitational.
Dagur Ragnarsson sigraði undankeppnina um þátttökuréttinn í netskákmótinu Síminn Invitational. Ljósmynd/Aðsend

Leikmaður vikunnar, Dagur Ragnarsson, varð á sunnudaginn efstur, með sjö vinninga, í undankeppni fyrir netskákmótið Sím­inn In­vitati­onal og þar með einn þeirra fimm skákmanna sem tryggðu sér rétt til þess að taka þátt í mótinu.

Óhætt er að segja að gott ár sé að baki hjá Degi en hann var kjörinn íþróttamaður Fjölnis 2024 og byrjaði árið með því að verða Skákmeistari Reykjavíkur 2024 og lauk því með sigri á Íslandsmótinu í atskák.

Hann segir helsta muninn á netskák og þeirri hefðbundnu vera að netskákin er hraðari og laus við alls konar rugl eins og til dæmis klukkubarning.

Degi finnst almennt hundleiðinlegt að tapa en sér þó tækifæri í því og telur bestu leiðina til þess að finna eigin veikleika felast í því að fara vel yfir töpin og greina ástæður þeirra.

Nafn: Dagur Ragnarsson
Aldur: 27 ára
Deild: Skák
Lið: Fjölnir


Hvað varð til þess að þú byrjaðir að tefla og hvað dró þig fyrst inn í skákheiminn?

„Þetta byrjaði þegar afi minn kenndi mér mannganginn þegar ég var örugglega í kringum svona 3-4 ára,“ segir Dagur um skákáhugann sem vaknaði snemma en afi hans hafi átt skáktölvuleik, líklega Chessmaster 9000, sem hann hafi haft mjög gaman að og spilaði mikið á tölvu.

„Ég tók svo þátt í mínu fyrsta skákmóti þegar ég var svona 4-5 ára í Húsdýragarðinum. Mér gekk hræðilega og tapaði öllum skákunum. Eftir það byrjaði ég að mæta á æfingar í Rimaskóla og hef ekki hætt að æfa síðan.“

Hefur skákin haft mikil áhrif á þig sem einstakling?

„Já að einhverju leyti. Ég hef til dæmis lært ákveðnar lífslexíur þegar mér hefur gengið svakalega illa. Mér finnst það eiga almennt við um flestar íþróttir.“

Hver er helsti munurinn á því að tefla á netinu eða á móti andstæðingnum við skákborðið?

„Netskák er hraðari og óháð einhverju rugli eins og til dæmis klukkubarningi.“

Er netskákin komin til að vera?

„Já, að sjálfsögðu. Eina sem þarf að tryggja er að menn svindli ekki á netinu. Það er helsta áskorunin fyrir netskákina í dag.“

Spilarðu einhverja tölvuleiki?

„Ég spilaði rosalega mikið í „gamla daga“, til dæmis League Of Legends, CSGO, Overwatch, Runescape og Hearthstone. Í dag tek ég kannski nokkra Rocket League-leiki ef ég hef tíma í það. Annars spila ég Minesweeper til þess að kveikja á heilanum áður en ég tek langa æfingu.“

Ertu að horfa á eitthvað á Netflix eða öðrum veitum?

„Ég og kærastan erum að taka Only Murderers in the Building í gegn á Disney.“

Hvernig lítur dæmigerður æfingadagur út hjá þér?

„Þegar ég er ekki að vinna þá vakna ég svona um tíuleytið og stúdera síðan frá klukkan 10.30 - 14.00. Tek mér svo góða pásu og held síðan áfram seinna um kvöldið. Allt í allt eru þetta kannski svona fimm til sex tímar á dag. Ef ég næ ekki að æfa almennilega þá reyni ég að gera stuttar æfingar eins og að leysa þrautir eða fara yfir byrjanirnar mínar.“

Hvaða ráð mynd­ir þú gefa þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í netskákinni?

„Það var einmitt skák-sprengja í kringum covid þar sem fullt af fólki byrjaði að tefla á netinu og ég hef hitt nokkra sem hafa bara teflt í örfá ár og eru ansi sæmilegir í skák.

Mér finnst flestir sem eru að koma nýir inn í þetta sport vera nokkuð góðir í byrjunum svo mitt ráð væri að eyða meiri tíma í til dæmis miðtöfl og endatöfl. Ég persónulega nota Chessable sem er svona skákþjálfunarvefsíða.“

Hefur einhver sérstakur skákmaður haft áhrif á þig og þinn stíl?

„Ég veit það ekki. Þegar ég var unglingur fór ég mikið yfir skákirnar hans Karpovs og kannski hefur það mótað stílinn minn. Annars er ég bara ekki almennilega viss hver stíllinn minn er. Fékk að heyra um daginn að ég væri “pirrandi skákmaður að eiga við“ þannig að kannski er ég bara með pirrandi stíl.“

Dagur var kjörinn Íþróttamaður Fjölnis 2024.
Dagur var kjörinn Íþróttamaður Fjölnis 2024. Ljósmynd/Aðsend

Er einhver fyrirmynd sem þú lítur upp til?

„Ég held að fyrirmyndirnar manns hverfi þegar maður verður eldri. Aftur á móti eru margir með eitthvað sem hægt er að taka til fyrirmyndar.“

Uppáhalds bíómyndin?

„Örugglega 12 Angry Men.“

Hvað ger­ir þú til að viðhalda and­legu og lík­am­legu jafn­vægi á keppnistímabilum?

„Nýtt hjá mér er að draga verulega úr koffínneyslu og einhverju skralli. Einnig er mikilvægt að halda sér í góðu líkamlegu formi. Ég fer oftast að synda eða hlaupa og svo af og til fer ég að lyfta.“ 

Er einhver sérstakur sem þú þolir illa að tapa fyrir?

„Engum sérstökum. Mér finnst bara hundleiðinlegt að tapa, en mér finnst líka gott tækifæri að geta farið vel yfir töpin sín og reyna að greina ástæðuna af hverju maður tapar. Mér finnst það vera besta leiðin til þess að finna veikleikana sína.“

Hver er skemmti­leg­asta reynsl­an eða minn­ing þín frá skák­ferl­in­um?

„Þær eru nokkrar. Norðurlandameistari unglinga árið 2015. Fyrsta skipti þegar ég keppti í landsliðsflokki árið 2017. Sigur á nokkrum erlendum mótum eins og nýlega í Amsterdam. Í desember varð ég Íslandsmeistari í atskák sem var fyrsti svona almennilegi fullorðins titillinn minn. Þetta eru þær minningar sem mér þykir mest vænst um.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert