RIG, Reykjavík International Games, í Counter Strike hélt áfram í gærkvöld þegar fjórir leikir voru spilaðir í 2. umferð. Tómas Jóhannsson og Ólafur Hrafn Steinarsson lýstu viðureign Kano og Venusar í beinni útsendingu Sjónvarps Símans og streymisveitum Rafíþróttasambandsins.
Fyrri leik liðanna lauk með 19:17 sigri Kano og Ólafur Hrafn svo langt að lýsa því yfir að leikurinn væri einn sá skemmtilegasti sem hann hefur horft á í íslenskum Counter Strike. „Þetta er einn skemmtilegasti leikur sem ég hef horft á í íslenskum CS. Mér fannst hann bara geggjaður.“
Tómas tók undir þetta en þeir félagar reiknuðu engu að síður með því að Venus myndi rétta sinn hlut í næsta leik. Niðurstaðan varð hins vegar sannfærandi 13:7 sigur Kano sem þar með sigraði umferðina 2:0. Á sama tíma lagði Dusty ace.X 2:0, VECA sigraði Fylki, einnig 2:0 og Saga afgreiddi Aurora með sömu lokatölum.
RIG í Counter Strike heldur áfram þriðjudaginn 14. janúar en eftir úrslit 2. umferðar raðast liðin þannig saman að í raun er um endurtekningu á 1. umferð að ræða þegar ace.X mætir Hjólinu á Enska, Fylkir og Sindri, Aurora og Verðbólga og Venus og Dusty JR takast á.