Denas á toppinn með besta vini sínum

Denas Kazu­lis sigraði ELKO-Deildina 2024 og er kominn í 1. …
Denas Kazu­lis sigraði ELKO-Deildina 2024 og er kominn í 1. sæti eftir tvo sigra í gærkvöld. Ljósmynd/Aðsend

Deildin í Fortnite hófst á ný í gærkvöld. Þrátt fyrir breytt fyrirkomulag þar sem keppt var í tvíliðaleik er staðan á toppnum strax orðin kunnugleg því þar trónir sigurvegari deildarinnar í fyrra, Den­as Kazul­is (den­as 13), ásamt félaga sínum, Jens (Jensína), með 94 stig eftir sigur í báðum leikjum umferðarinnar.

Denas segir þá Jens oft spila Fortnite saman en þeir eru nágrannar og hafa verið bestu vinir síðan í leikskóla. Höfuðandstæðingur Denasar á síðasta ári, Kristófer Tristan (iKristoo) var ekki með í gærkvöld.

Sigmar, félagi hans, spilaði því einn með góðum árangri en ætla má að leikar æsist enn frekar í næstu viku þegar Kristófer stígur inn á völlinn.

Ólafur Hrafn Steinarsson og Aron Fannar hófu nýtt ár og nýtt tímabil í deildinni með beinni lýsingu frá fyrstu umferð í gærkvöld. Þeir byrjuðu á að kynna breytt keppnisfyrirkomulag sem auk þess að snarfjölga keppendum virðist vel til þess fallið að magna snerpu spilaranna og auka spennuna.

Þeir félagar fóru yfir helstu breytingar frá síðasta keppnistímabili þar sem hæst ber að keppnin stendur nú í fjórar vikur í stað tíu áður sem óhjákvæmilega felur í sér að hver leikur verður mikilvægari og svigrúm fyrir mistök er lítið. 

Þá hefst deildin, eins og áður segir, með tvíliðaleik sem aftur skilar sér í auknum fjölda keppenda sem voru í fyrra upp undir 50 þegar best lét en nú hafa 84 skráð sig til leiks í 42 liðum. 

Ólafur Hrafn benti einnig á að þótt keppni sé hafin er enn hægt að skrá sig og stökkva inn í mótið. Opið er fyrir skráningu hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert