Rafíþróttir voru ekki mjög áberandi í umræðunni þegar Valgeir Þór Jakobsson og Þorkell Már Júlíusson ákváðu að skrifa BA-ritgerðina „Þetta bjargaði lífi mínu“ um félagslegan ávinning þeirra. Titillinn vísar til orða eins viðmælenda þeirra sem telur skipulagt rafíþróttastarf hafa bjargað lífi sínu.
„Þetta var svona soldið framsækið. Það má alveg viðurkenna það,“ segir Valgeir Þór um ritgerðina sem þeir félagar skiluðu fyrir tæpum fimm árum og Þorkell bætir við að hann muni aðallega eftir því að leiðbeinandinn þeirra, Árni Guðmundsson, og fleiri hafi aðallega staldrað við hversu lítið hafi verið skrifað og í raun vitað um viðfangsefni þeirra.
„Og það var alveg ágætlega tekið í þetta,“ segir hann. „Já, alveg 100%,“ bætir Valgeir við. „Þetta var 2020 þannig að þetta fer að detta í fimm ár bráðum. Það hefur allaveganna alls konar fólk lesið þetta sem kom mér á óvart,“ bætir Valgeir við og hlær.
Þeir félagar, sem starfa saman í Félagsmiðstöðinni Hólmaseli, lögðu upp með það markmið að „fá skýrari sýn á það hvort skipulagt rafíþróttastarf hafi áhrif á vellíðan einstaklinga í gegn um félagslegan ávinning.“
Skemmst er frá því að segja að eigindleg rannsókn þeirra leiddi í ljós jákvæðan félagslegan ávinning af rafíþróttaiðkun sem skili sér í þéttara og stærra félagsneti.
Valgeir og Þorkell grundvölluðu rannsókn sína á viðtölum við fimm karlmenn sem allir höfðu keppt í rafíþróttum með liði. Þegar ritgerðin birtist voru fjórir enn spilandi en einn hafði snúið sér að þjálfun í rafíþróttum.
Fimmmenningarnir nefndu allir sterka tengingu milli andlegrar og líkamlegrar heilsu og góðs gengis í rafíþróttum. Einn þeirra lýsti gríðarlegum breytingum eftir að hann fór að æfa með þjálfara og gekk svo langt að segja rafíþróttirnar eiginlega hafa bjargað lífi sínu.
„Þá byrjaði ég að taka mig á, það var ekki fyrr en þá þegar ég byrjaði að hugsa um svona líkamlega heilsu og andlega heilsu,“ sagði hann meðal annars og að eiginlega það eina sem hann gæti sagt væri að þetta „svona eiginlega bjargaði lífi mínu.“
Sami viðmælandi sagðist jafnframt hafa verið mjög einangraður áður en hann byrjaði að spila með liðinu sínu og fullyrti að „fyrir fólk sem á ekki mikið af vinum þá getur þetta bjargað lífi manns.“
Öllum bar þeim saman um að veruleg breyting hafi orðið á því hvernig þeir spiluðu tölvuleiki eftir að þeir byrjuðu í rafíþróttum. Spilatíminn hafi minnkað með breyttri nálgun og að ekki væri bara verið að spila til að spila. Þeir áttu einnig allir sameiginlegt að þegar þeir byrjuðu í rafíþróttum fundu þeir strax eitthvert eftirsóknarvert markmið.
Spilamennskan varð að mestu bundin við æfingar og alltaf stefndu þeir að því að verða betri með markvissum árangri. Þannig líkti einn þeirra „þessu að miklu leyti við aðrar íþróttir þar sem að hann æfir sig oft einn áður en hann fer á æfingu þar sem að hann æfir með öllum hinum, síðan æfir hann sig einn aftur ef það er eitthvað sem þarf að bæta.“
Rafíþróttamennirnir fimm létu þess einnig getið að stuðningur foreldra og jákvætt viðhorf þeirra væru mikilvægir þættir í velgengni í íþróttinni. Allir áttu þeir sameiginlegt að foreldrar þeirra voru í upphafi almennt frekar neikvæðir en eftir því sem þau hafi orðið vör við hvað var í raun og veru í gangi hafi viðhorf þeirra breyst mikið.
„Ég myndi segja að eitt aðalatriðið, sem oft vantar inn í þessa umræðu, er aðkoma foreldra að þessu,“ segir Valgeir. „Að þau sýni þessu áhugamáli áhuga alveg eins og öllum öðrum íþróttum. Maður hefur mjög oft séð að það eru foreldrarnir sem gera útslagið um hvora leiðina krakkarnir fara. Hvort þau noti þetta sem heilbrigða tómstund eða einangri sig.“
Hann mælir því með að foreldrar leggi sig fram um að komast að því hvaða tölvuleiki börn þeirra eru að spila og spila með þeim. „Finna út hverjar fyrirmyndir krakkanna eru, því þetta eru oftast YouTuberar og annað. En fyrir þessum krökkum eru þetta jafn miklar fyrirmyndir og Cristiano Ronaldo, skilurðu?“
Valgeir talar hér bæði af reynslu sem starfsmaður í félagsmiðstöð og ekki síður af nokkurri þekkingu þar sem aðkoma og nálgun foreldra að leikjaspilun kom við sögu í rannsókn þeirra Þorkels.
Þannig kom fram í máli tveggja viðmælenda þeirra að viðhorf foreldra þeirra hafi ekki byrjað að breytast til hins betra fyrr en þeir fóru að sýna fram á að þeir gætu aflað sér tekna með rafíþróttaiðkun sinni.
„Þau voru mjög á móti tölvuleikjum af því að ég spilaði svo mikið þangað til að ég byrjaði að fá borgað fyrir það,“ sagði einn og bætti við að þau hefðu sýnt honum miklu meiri stuðning í kjölfarið.
Hinn sagðist halda að það „sé bara miklu betra fyrir andlegu hliðina“ hjá öllum að hafa mömmu og pabba að baki sér.
Þeir félagar segjast ekki hafa verið neitt sérstaklega ákafir leikjaspilarar þegar ritgerðarefnið varð fyrir valinu. „Hann kannski aðeins meira en ég. Akkúrat á þessum tíma“ segir Valgeir.
„Já,já. Maður var eitthvað bara að spila heima. Ekkert keppnis eða neitt þannig,“ segir Þorkell. „Bara þetta klassíska. FIFA,“ skýtur Valgeir inn í og Þorkell bætir við: „Við vorum svona mest að spila Call of Duty saman, félagarnir.“
Valgeir segir þá hafa ákveðið umfjöllunarefnið rétt áður en Covid skall á og faraldurinn hafði að sjálfsögðu sín áhrif. „Já, og síðan skrifuðum við þetta náttúrlega í fyrstu bylgjunni,“ segir Þorkell og Valgeir heldur áfram:
„Þá var maður nú bara soldið fastur heima og þá byrjaði ég að spila á kvöldin með öllum strákunum og fannst rosalega áhugavert að ég væri að sökkva mér ofan í tölvuleiki.
Ég skildi ekki af hverju vegna þess að ég er ekkert mikill tölvuleikjaspilari,“ segir Valgeir sem þarna áttaði sig á vægi félagslega þáttarins þar sem hann hafi í raun meira verið að spjalla en endilega spila.
„Tómstunda- og félagsmálafræðin er náttúrlega þannig nám að þú ert að skoða félagslíf, heilbrigðar tómstundir og heilbrigða nýtingu frítímans,“ heldur hann áfram og Þorkell bendir á að þeir hafi líka verið og séu mikið í kringum tölvuleiki í vinnunni.
Valgeir tekur undir og bætir við að um svipað leyti hafi þeir verið að fá samþykkta fjárveitingu fyrir rafíþróttaveri í félagsmiðstöðinni. „Þannig að þetta lá bara einhvern veginn í loftinu og tvinnaðist einhvern veginn svona fínt saman.“
Valgeir segir rafíþróttaverið hafi, fyrstu tvö til þrjú árin, aðallega hafa nýst til þess að ná til jaðarsettra hópa. „Eða krakka sem eru kannski að einangra sig og við vorum svona meira að grípa þau og snúa leikjaspiluninni frá þessu neikvæða yfir í jákvætt.“
Hann segir þessa vinnu þó ekki hafa verið skipulagða eins og gengur og gerist hjá rafíþróttafélögunum. „Okkar nálgun á þetta sem starfsmenn í félagsmiðstöð snerist í rauninni meira um að rjúfa einangrun með því að þau spiluðu bara í sama rými.“
Þorkell bætir við að síðan hafi verið unnið markvisst að því að hópurinn færi að gera eitthvað saman og Valgeir heldur áfram: „Og það var alltaf svona rúsínan í pylsuendanum. Við hittumst kannski einu sinni í viku og svo kannski fimmta hvert skipti stungum við upp á því að við færum til dæmis í keilu.
Þá erum við einhvern veginn að sprengja út þennan tölvuleik og þau eru allt í einu farin að hittast. Þannig að við erum svona að nota þessa félagslegu hlið tölvuleikja til þess akkúrat að rjúfa einangrunina.“
Aðspurðir segjast Þorkell og Valgeir ekki hafa fylgst sérstaklega vel með þróun rafíþróttastarfs á Íslandi síðan þeir skiluðu ritgerðinni. „Já og nei. Ekkert rosalega mikið en maður hefur náttúrlega alveg áhuga en nær kannski ekki alltaf að fylgjast nógu vel með.“
Valgeir tekur í sama streng og segist vera með annað augað á því sem er í gangi. „Maður fylgist bara svona af og til með því sem maður hefur áhuga á í rafíþróttum. Ef maður þekkir einhverja innan geirans eða eitthvað þannig,“ segir hann og bendir á að það sem blasi við og fari hvergi milli mála er að rafíþróttir eru í mikilli uppsveiflu.
„Af því að ég er nú formaður SAMFÉS, sem hélt reglulega rafíþróttamót fyrir unglinga í félagsmiðstöðvum, myndi ég allaveganna segja að besta þróunin sem ég tek eftir er að þetta er ekki búið að ganga upp hjá okkur síðasta eitt og hálfa árið.
Eiginlega bara af því að það er ekki þörf fyrir þessi mót lengur vegna þess að það er svo mikið af rafíþróttamótum í gangi.
Þegar við byrjuðum vantaði í raun þessa umgjörð og þennan aldurshóp vantaði rafíþróttamót en nú hefur þetta snúist alveg við. Það er orðið svo mikið í gangi fyrir þau að það er ekki þörf fyrir okkur lengur og ekki ætlum við að vera í samkeppni við Rafíþróttasambandið. Þetta er mjög jákvætt vegna þess að þetta var ekkert svona fyrir akkúrat þremur árum.“
Þorkell og Valgeir taka því eðlilega undir að þróunin á allra síðustu árum hljóti að mega teljast hafa rennt stoðum undir niðurstöður þeirra sem vörpuðu „heldur jákvæðu ljósi á tölvuleikjaspilun með rafíþróttaliði“.
Auk þess sem rannsóknin hafi sýnt fram á hvað helst þurfi að einblína á til þess að rafíþróttastarfið geti stuðlað að félagslegum ávinningi þátttakanda; vellíðan og bættri heilsu.
„Já og maður sér líka umgjörðina sem rafíþróttafélögin eru með og er einhvern veginn stórkostleg. Að þau séu að sjá svona vel um alla. Það skiptir líka miklu máli,“ segir Þorkell og Valgeir kjarnar þetta í einni setningu: „Líkami og hugur. Þetta helst allt í hendur.“