Ben Sulayem, formaður alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA), hefur beðið forsvarsmenn Formúlu 1 að reyna að stemma stigu við blótsyrðum og dónaskap ökumanna í keppnum.
Í sjónvarpsútsendingum frá Formúlu 1 má gjarnan heyra samskipti ökumanna og starfsmanna liðanna í gegnum talstöðvarkerfi liðanna en við og við leggja ökumenn áherslu á orð sín með vel völdum blótsyrðum.
Þetta þykir Sulayem vera miður og finnst ökumenn þurfa að vanda málfar sitt þar sem ungir áhorfendur hafi ekki gott af því að hlusta á dónaskap.
Lewis Hamilton er sammála því að ökumenn mættu passa sig betur
„Ég er sammála því að það er of mikið af blótsyrðum, miklar tilfinningar eru í spilinu og menn gleyma því að fullt af fólki, þar á meðal börn, eru að horfa“, sagði heimsmeistarinn sjöfaldi.
„Ég hugsaði ekki eins mikið um þetta þegar ég var 22 ára og sumir af yngri ökuþórunum hafa ekki fattað þetta ennþá en þeir munu líklega gera það þegar þeir eldast“, bætti Hamilton við.