Verstappen óánægður með yfirmennina

Verstappen er ekki sáttur með Red Bull Racing.
Verstappen er ekki sáttur með Red Bull Racing. AFP/Giuseppe Cacace

Helmut Marko, ráðgjafi forstjóra Red Bull Racing í Formúlu 1, segir að heimsmeistarinn Max Verstappen sé óánægður með meðferðina sem fyrrum liðsfélagi hans fékk hjá liðinu.

Nýsjálendingurinn Liam Lawson var sendur aftur niður í ungmennalið Red Bull Racing, Racing Bulls, eftir að hafa farið stigalaus í gegnum fyrstu tvær keppnir tímabilsins. Í hans stað kemur Japaninn Yuki Tsunoda.

„Við vitum að Max er ósáttur en við þurfum tvo bíla framarlega í öllum keppnum. Ekki bara fyrir okkur í keppni um heimsmeistaratitil bílasmiða heldur líka til að hjálpa Max að vinna sinn fimmta heimsmeistaratitil. Þú getur keyrt og keppt af meiri kænsku þannig,“ sagði Marko í viðtali við De Telegraaf.

„Við þurftum að bregðast við áður en Liam missti sjálfstraustið algjörlega. Við megum ekki gleyma því að ferill hans er ekki búinn. Hann er kominn aftur í Racing Bulls, lið með bíl sem getur vel skorað stig. Þar fer hann í bíl sem er töluvert auðveldari í akstri en aðalmálið er kannski að hann er kominn aftur í lið þar sem hann er ekki borinn saman við Max Verstappen,“ sagði Marko um Liam Lawson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert