Skoraði og lagði upp í risasigri

Viðar Ari Jónsson í leik með FH á sínum tíma.
Viðar Ari Jónsson í leik með FH á sínum tíma. mbl.is/Arnþór Birkisson

Viðar Ari Jónsson átti stórleik fyrir HamKam þegar liðið vann ótrúlegan útisigur á Sarpsborg, 7:1, í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag.

Staðan var 5:0 í hálfleik þar sem Viðar Ari skoraði eftir sendingu Gard Simenstad og launaði honum svo greiðann skömmu fyrir leikhlé með því að leggja upp mark fyrir Simenstad.

Viðar Ari lék allan leikinn fyrir HamKam og Brynjar Ingi Bjarnason lék síðari hálfleikinn, sem reyndist algjört formsatriði.

HamKam fór með sigrinum upp í 13. sæti og Sarpsborg niður í 15. sæti af 16 liðum, þar sem bæði lið eru með sjö stig.

Nýliðarnir á góðu róli

Júlíus Magnússon lék allan leikinn á miðjunni hjá nýliðum Fredrikstad sem unnu Strömsgodset örugglega, 4:1.

Júlíus virtist vera að skora sitt fyrsta mark í úrvalsdeildinni en mark hans á 70. mínútu, þegar staðan var orðin 4:1, var dæmt af vegna rangstöðu eftir athugun VAR.

Logi Tómasson lék allan leikinn fyrir Strömsgodset.

Fredrikstad er í fjórða sæti deildarinnar með 17 stig. Strömsgodset er í tíunda sæti með 10 stig.

Haugesund vann Íslendingaslag

Haugesund bar sigurorð af nýliðum Kristiansund, 1:0, þar sem þrír Íslendingar komu við sögu.

Anton Logi Lúðvíksson kom inn á sem varamaður á 78. mínútu hjá Haugesund en Hlynur Freyr Karlsson var allan tímann á varamannabekknum.

Brynjólfur Willumsson og Hilmir Rafn Mikaelsson voru báðir í byrjunarliði Kristiansund en voru teknir af velli á 61. mínútu.

Haugesund fór með sigrinum upp í níunda sæti þar sem liðið er með 10 stig. Kristiansund er í 11. sæti með níu.

Viking mátti þá þola stórt tap á heimavelli, 1:4, gegn Lilleström.

Patrik Sigurður Gunnarsson lék allan leikinn í marki Viking, sem er í sjötta sæti með 12 stig. Lilleström er í áttunda sæti með 10 stig.

Íslendingalið í efstu sætunum

Tveir leikir fóru þá fram í norsku B-deildinni.

Aalesund tapaði 0:2 á heimavelli fyrir Sogndal, þar sem Davíð Snær Jóhannsson lék allan leikinn á miðju heimamanna.

Óskar Borgþórsson var allan tímann á varamannabekk Sogndal en var þetta í fyrsta skipti á tímabilinu sem hann var í leikmannahópi liðsins.

Kongsvinger vann þá sterkan útisigur á Vålerenga, 2:0, þar sem Róbert Orri Þorkelsson lék allan leikinn í hjarta varnarinnar.

Sogndal er á toppnum með 15 stig líkt og Kongsvinger í sætinu fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert