Baggio meiddur eftir vopnað rán

Roberto Baggio.
Roberto Baggio. Reuters/Stefano Rellandini

Ítalska knattspyrnugoðsögnin Roberto Baggio varð fyrir óskemmtilegri reynslu á heimili sínu í gær þegar vopnaðir menn réðust inn á heimilið, börðu kappann og rændu.

Baggio og fjölskylda sátu fyrir framan sjónvarpið þegar minnsta kosti fimm vopnaðir menn brutust inn. Baggio reyndi að stöðva ræningjana en var sleginn í andlitið með byssu. Mennirnir læstu Baggio og fjölskyldu hans í herbergi í húsinu á meðan þeir rændu heimilið.

Þegar mennirnir yfirgáfu heimilið sparkaði Baggio niður hurðinni og hringdi á lögreglu. Baggio var fluttur á sjúkrahús þar sem gert var að skurði á enni hans. Fjölskylda hans er sögð ómeidd eftir atburðinn en brugðið.

Baggio var skærasta stjarna Ítalíu á tíunda áratugnum og leiddi liðið í úrslitaleik HM 1994 þar sem liðið beið lægri hlut gegn Brasilíu. Baggio klúðraði lokaspyrnu Ítala í vítaspyrnukeppninni sem tryggði Brasilíu sigurinn.

Roberto Baggio skorar gegn Spáni á HM 1994.
Roberto Baggio skorar gegn Spáni á HM 1994. AFP/Timothy A. Clary
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert