Logi í plönum Strømsgodset, höfnuðu 100 milljónum

Logi Tómasson.
Logi Tómasson. mbl.is/Óttar Geirsson

Logi Tómasson hefur slegið í gegn í norska fótboltanum á tímabilinu og hefur vakið athygli erlendra liða. Yfirmaður knattspyrnumála hjá Strømsgodset segir félagið ekki þurfa að selja leikmanninn.

Logi hefur skorað eitt mark og lagt upp þrjú í ellefu leikjum á tímabilinu og hefur verið í lykilhlutverki hjá Strømsgodset á tímabilinu. Í gær bárust fréttir af því að belgíska félagið Kortrijk hefði boðið í Loga og fleiri félög eru talin hafa áhuga. Freyr Alexandersson er þjálfari Kortrijk, en samkvæmt heimildum mbl.is voru Belgarnir tilbúnir til að greiða rúmar 100 milljónir króna fyrir Loga.

Jostein Flo, yfirmaður knattspyrnumála hjá Strømsgodset, segir í samtali við Drammens tidende að félagið ekki hafa ákveðið verðmiða fyrir Loga þar sem langt sé í að félagskiptaglugginn opni. „Logi er í okkar plönum áfram. Hann hefur spilað vel og það er eðlilegt að önnur félög fylgist með honum en við þurfum ekki að selja hann.“

„Logi passar vel í okkar leikstíl og það sem við erum að reyna að skapa hjá félaginu svo ég vona að við getum byggt ofan á það. Ég trúi því líka að hann geti tekið enn stærri skref hjá Strømsgodset.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert