Hlynur Freyr á förum frá Haugesund

Hlynur Freyr Karlsson er á förum til Svíþjóðar
Hlynur Freyr Karlsson er á förum til Svíþjóðar Ljósmynd/Valur

Hlynur Freyr Karlsson, varnarmaður Haugesund, er á leið til sænska úrvalsdeildarliðsins Brommapojkarna samkvæmt Aftonbladet. Hlynur staldrar stutt við í Noregi en hann gekk til liðs við Haugesund í vetur.

Hlynur Freyr vakti athygli fyrir góða frammistöðu á síðustu leiktíð fyrir Val og eitt af fyrstu verkum nýráðins þjálfara Haugesund, Óskars Hrafns Þorvaldssonar, var að kaupa varnarmanninn unga. Óskar hætti síðan störfum í vor en Hlynur hefur fengið fá tækifæri í Noregi og aðeins komið við sögu í fjórum af fyrstu ellefu leikjum liðsins í deildinni.

Samkvæmt sænska miðlinum hefur Brommapojkarna haft augastað á Hlyni í lengri tíma en félagaskiptin eru nánast frágengin. Greint er frá því að Hlynur skrifi undir á morgun eða miðvikudag.

Brommapojkarna er frá Stokkhólmi og er í ellefta sæti af sextán liðum í sænsku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert