Hrósar íslenska landsliðsmanninum í hástert

Jón Dagur er í miklum metum hjá þjálfara Herthu Berlínar.
Jón Dagur er í miklum metum hjá þjálfara Herthu Berlínar. Ljósmynd/Hertha Berlín

Jón Dagur Þorsteinsson hefur vakið athygli í fyrstu leikjum sínum fyrir Herthu Berlin en hann hefur komið inn á sem varamaður í báðum leikjunum. Þjálfari Jóns hrósar leikmanninum fyrir hugrekki.

„Hann hefur komið inn á í tvígang og kom sér strax inn í leikinn. Jón leitar að stöðum einn gegn einum, er mjög hugrakkur leikmaður og getur farið fram hjá mönnum til hægri og vinstri. Hann er góður skotmaður og með skýran tilgang á vellinum“, sagði Christian Fiel, þjálfari Herthu.

„Það er ljóst að hann er nýkominn til liðsins og þarf fleiri æfingar með liðinu en hvað mig varðar er hann tilbúinn. Hann leggur hart að sér, lærir hratt og er með framúrskarandi hugarfar“, bætti Fiel við.

Jón Dagur Þorsteinsson fagnar marki sínu gegn Svartfellingum í Þjóðadeild …
Jón Dagur Þorsteinsson fagnar marki sínu gegn Svartfellingum í Þjóðadeild Evrópu á dögunum. mbl.is/Árni Sæberg

Hertha leikur í 2. deild Þýskalands og er með sjö stig eftir fimm leiki í níunda sæti. Fortuna Dusseldorf er í fyrsta sæti með þrettán stig en Valgeir Lunddal Friðriksson og Ísak Bergmann Jóhannesson leika með liðinu.

„Jón er öðruvísi leikmaður en hinir kantmennirnir okkar. Hann ræðst á varnarmenn og annaðhvort skýtur eða gefur fyrir markið“, sagði yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu en ítarleg grein um Jón Dag var birt hjá þýska miðlinum Kicker í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert