Kortrijk sendir út yfirlýsingu

Freyr Alexandersson
Freyr Alexandersson Ljósmynd/K.V. Kortrijk

Belgíska knattspyrnufélagið Kortrijk birti yfirlýsingu á heimasíðu sinni vegna fregna þess efnis að Freyr Alexandersson, þjálfari liðsins, sé sterklega orðaður við Cardiff City.

Miðillinn HLN gekk svo langt að segja Frey hafa logið til um veikindi en hafi í stað þess flogið til  Wales og rætt við forráðamenn Cardiff. Þessu vísaði Freyr á bug á samfélagsmiðlinum X í dag en Freyr leggur orð í belg í yfirlýsingunni.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

Kortrijk vill svara röngum fréttaflutningi þess efnis að þjálfari okkar, Freyr Alexandersson, væri á förum til Cardiff City.

Félaginu og þjálfaranum, Frey Alexanderssyni, var brugðið yfir brengluðum fréttum í mörgum miðlum. Alexandersson var ekki staddur í Wales í síðustu viku og verður þjálfari Kortrijk.

„Ég er ekki í viðræðum við Cardiff og brottför frá félaginu er ekki á stefnuskránni. Ásamt stuðningsmönnum, leikmönnum og starfsfólki leggjum við hart að okkur fyrir framtíð KVK„, staðfestir þjálfarinn.

Félagið mun ekki svara frekari spurningum heldur munu leikmenn, starfsfólk og stuðningsmenn einbeita sér að næsta leik á sunnudag gegn Union.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert