Sagður hafa hótað að drepa leikmann

Fabio Maresca.
Fabio Maresca. AFP/Gabrielle Menis

Ítalski knattspyrnudómarinn Fabio Maresca gæti verið í vandræðum eftir að hann var sakaður um að hafa hótað að drepa leikmann á meðan Maresca dæmdi leik í Kúveit.

Hann átti að vera fjórði dómari í leik PSV Eindhoven og Sporting Lissabon í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi en var tekinn af leiknum á meðan Maresca sætir rannsókn.

Hann dæmdi leik Kuwait SC og Al-Arabi í efstu deild þar í landi í síðasta mánuði og hefur síðarnefnda félagið lagt fram kæru í garð Maresca.

Í tilkynningu frá lögmanninum Adnan Abdul, stjórnarmanni Al-Arabi, segir að ítalski dómarinn hafi brugðist ókvæða við þegar leikmaður liðsins, Khaled Al-Murshen, hafi rekist í Maresca á meðan leiknum stóð.

Hafi honum ekki þótt áreksturinn vera óvart og sagt við Al-Murshen: „Ég drep þig!“ Segir í tilkynningunni að Al-Arabi hafi myndræn sönnunargögn undir höndum sem sýni fram á hvað hafi átt sér stað.

Maresca gæti staðið frammi fyrir mánaðar banni frá því að dæma leiki á Ítalíu en Gianluca Rocchi, yfirmaður samtaka ítalskra atvinnudómara, mun taka ákvörðun þar að lútandi á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert