Gríðarlegur áhugi er á þýska knattspyrnuliðinu Düsseldorf um þessar mundir, en með því leika Ísak Bergmann Jóhannesson og Valgeir Lunddal Friðriksson.
Liðinu gengur vel og er í toppsæti B-deildarinnar með 17 stig eftir sjö leiki. Þrátt fyrir að liðið sé í B-deildinni eru að jafnaði um 40.000 stuðningsmenn á leikjum liðsins, en völlurinn tekur um 52.000 áhorfendur.
Þrátt fyrir það hafa stjórnarmenn félagsins tekið upp á því að bjóða reglulega frítt á völlinn. Frítt verður á leik liðsins við Hamburg á laugardag.
Stuðningsmenn þurftu að sækja um miða og mun færri komust að en vildu, því 135.000 umsóknir bárust.
Alexander Jobst stjórnarformaður félagsins sagði í samtali við Sky að félagið græðir jafnan meira þegar frítt er á völlinn vegna sölu á öðrum varningi.
„Við prófuðum þetta á undan öllum öðrum. Það voru aðeins 25.000 áhorfendur á leikjum hjá okkur og það var ekki nógu gott. Þetta hefur gengið framar vonum,“ sagði hann.