Skagamaðurinn ungi skrifaði undir

Daníel Ingi Jóhannesson framlengdi við Nordsjælland.
Daníel Ingi Jóhannesson framlengdi við Nordsjælland. Ljósmynd/Nordsjælland

Skagamaðurinn ungi Daníel Ingi Jóhannesson skrifaði í dag undir nýjan samning við danska knattspyrnufélagið Nordsjælland.

Daníel Ingi, sem er 17 ára gamall, kom til Nordsjælland frá ÍA á síðasta ári og hefur leikið með U19 ára liði danska félagsins.

„Ég er mjög ánægður með að framlengja við Nordsjælland. Vonandi heldur jákvæða þróunin hjá mér áfram. Ég er glaður að halda áfram hjá þessu magnaða félagi.

Ég framlengdi samninginn því mér líður eins og þetta sé rétti staðurinn fyrir mig. Ég er að njóta þess að vera hérna,“ er haft eftir honum á heimasíðu félagsins. Ekki er tekið fram hve langur nýi samningurinn er. 

Daníel Ingi er yngri bróðir landsliðsmannsins Ísaks Bergmanns Jóhannessonar. Þá er hann sonur þeirra Jóhannes Karls Guðjónssonar fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmanns og Jófríðar Maríu Guðlaugsdóttur sem lék á sínum tíma tíu leiki í efstu deild með ÍA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert