Knattspyrnukonan Heiðdís Lillýardóttir segir farir sínar ekki sléttar eftir að hún tilkynnti svissneska félaginu Basel að hún væri barnshafandi í desember síðastliðnum.
Heiðdís hafði hugsað sér að eignast barn sitt sem leikmaður Basel enda átti hún þá eitt og hálft ár eftir af samningi sínum, en af því varð ekki. Í samtali við Fótbolta.net lýsir hún því hvernig fyrstu viðbrögð svissneska félagsins hafi verið góð og öllu fögru hafi verið lofað.
Basel var meðvitað um dómsmál Söru Bjarkar Gunnarsdóttur sem þurfti að leita réttar síns eftir að franska félagið Lyon neitaði að greiða henni laun þegar hún var barnshafandi og nefndi svissneska félagið þetta mál að fyrra bragði við Heiðdísi. Hlutirnir breyttust hins vegar fljótt.
„Í sömu vikunni bönnuðu þeir mér að mæta á æfingu, og æfingar yfir höfuð, sögðu að þeir vildu ekki bera ábyrgð á neinu, væru hræddir og vissu ekki hvernig ætti að tækla stöðuna.
Mér fannst þetta mjög skrítið því það er mjög auðvelt að kynna sér þetta allt og á þessum tímapunkti er fóstrið pínulítið, eins og fræ, maður getur alveg æft. Það er talað um að það sé hægt að æfa vel fram á tólftu viku, og svo fer framhaldið eftir því hvernig manni líður,“ sagði hún við Fótbolta.net.
„Ég upplifði eins og þau hafi verið að reyna að láta mér líða það illa svo ég myndi vilja fara heim. Mér leið hræðilega andlega á þessum tímapunkti og ofan í það var ég með ógeðslega mikla ógleði tengda óléttunni.
Fyrir þetta hafði ég verið mjög ánægð þarna og sagði frá byrjun að ég vildi vera áfram á samning og koma til baka með Basel. En ég átti orðið það erfitt á þessum tímapunkti að ég gat ekki hugsað mér að vera þarna áfram,“ bætti Heiðdís við, sem fæddi dótturina Lillý í ágúst síðastliðnum.
Því samdi hún um riftun á samningi sínum, sem var þó ýmsum erfiðleikum háð og greiðslur bárust seint eða ekki.
„Mig langar ótrúlega mikið að aðrir leikmenn læri af þessu sem gerðist hjá mér. Það er ekkert grín að vera í þessari stöðu, miklu erfiðara en maður gerir sér grein fyrir. Bara það að fá ekki stuðning frá félaginu og að finna fyrir því að þau séu ekki að fara vera til staðar.
Mig langar líka að félög taki ábyrgð og séu meðvituð um leiðarvísi FIFPRO þannig að mæðrum líði velkomnum og öruggum á meðgöngu og eftir fæðingu. Ég er búin að vera ein að standa í þessu öllu, ekki búin að semja við lið upp á næsta ár og það hefur verið erfitt að hafa ekki fengið neinn stuðning í kringum þetta.
Mér finnst erfitt að hafa ekki fengið fjárhagslegan stuðning í þessu ferli og stuðning fyrir því að snúa aftur eftir fæðingu. Leið eins og ferillinn væri bara búinn af því ég væri að verða mamma,“ sagði Heiðdís um upplifun sína.