Alltaf verið að skoða hlutina

Óðinn Þór Ríkharðsson.
Óðinn Þór Ríkharðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við viljum tvo sigra, það er ekkert annað í boði,“ sagði Óðinn Þór Ríkharðsson, landsliðsmaður í handbolta, fyrir komandi verkefni gegn Bosníu og Georgíu í undankeppni EM 2026.

Ísland fær Bosníu í heimsókn í Laugardalshöllina annað kvöld. Íslenska liðið mætir síðan Georgíu ytra á sunnudaginn. Grikkland er síðan þriðja lið riðilsins. 

Leikirnir eru einnig undirbúningur fyrir HM, þar sem Ísland mun leika í G-riðli í Zagreb í janúar næstkomandi.

„Þetta leggst mjög vel í mig, alltaf gaman að koma í landsliðið. Það er alltaf skemmtilegt að koma heim og hitta strákana. Ég er spenntur fyrir þessu,“ sagði Óðinn Þór í samtali við mbl.is. 

Með flotta leikmenn 

Óðinn Þór þekkir aðeins til bosníska liðsins. 

„Þeir eru með flotta leikmenn sem eru að spila í alvöru liðum. Ég býst við skemmtilegum leik.“

Íslenska liðið mun síðan ferðast til Georgíu en það tekur tvö flug og heilan dag að komast þangað. 

„Það verður bara skemmtilegt. Langur ferðadagur fram undan, við gerum það besta úr þessu.“

Undanúrslit stóra markmiðið

Óðinn Þór er á sínu þriðja tímabili með Svissmeisturum Kadetten. Hann hefur mikið skorað fyrir liðið sem er með afgerandi forystu í Sviss. 

Hins vegar hefur ekki gengið eins vel og Óðinn hefði viljað hingað til í Evrópudeildinni, næststerkustu deild Evrópu, en þar er liðið í þiriðja sæti í riðlinum sínum. Enn eru þó tvær umferðir eftir. 

„Þetta gengur fínt. Við fengum smá skell í Evrópudeildinni sem var ekki nógu gott. Í Sviss er staðan bara góð, eins og hún er nánast alltaf. 

Stóra markmiðið er alltaf að fara í undanúrslit í Evrópudeildinni. Síðan viljum við vinna riðilinn okkar en erum ekki í sérstakri stöðu til þess núna. 

Samningsbundinn til 2027

Óðinn Þór hefur eins og áður kom fram verið að spila mjög vel í Sviss. Hann er samningsbundinn Kadetten til ársins 2027 en segir að samtal sé alltaf í gangi um mögulegt næsta skref. 

„Eins og staðan er núna er ég samningsbundinn til 2017, ég gerði langan samning. Það er alltaf verið að skoða einhverja hluti en ég er bara samningsbundinn næstu þrjú árin, svo einfalt,“ bætti Óðinn Þór við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert