Liverpool tók á móti Leverkusen í fjórðu umferð Meistaradeildar Evrópu í kvöld en spilað var á Anfield vellinum í Liverpool. Liðin buðu upp á kaflaskiptan leik sem á endanum endaði með sannfærandi sigri Liverpool, 4:0.
Eftir leikinn er Liverpool á toppi Meistaradeildarinnar með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir en Leverkusen er með sjö stig í 11. sæti.
Það er ekki hægt að segja að fyrri hálfleikurinn hafi verið leikur margra færa, það var hann svo sannarlega ekki.
Hættulegasta færi hálfleiksins kom á annarri mínútu uppbótartíma hans þegar Curtis Jones skipti boltanum yfir til vinstri á Cody Gakpo. Hollendingurinn kom með boltann inn á völlinn og lét vaða að marki en skotið fór beint á Lucas Hradecky markvörð Leverkusen.
Allt annað var að sjá til Liverpool liðsins í seinni hálfleiknum og ljóst að Arne Slot hafi látið einhver vel valin orð falla inni í búningsklefa í hálfleik.
Á 61. mínútu kom fyrsta mark leiksins þegar að Curtis Jones átti stórkostlega stungusendingu innfyrir vörn gestanna og fann þar hlaupið hjá Luis Díaz. Kólumbíumaðurinn tók vel á móti boltanum og vippaði boltanum snyrtilega yfir Hradecky í marki gestanna.
Tveimur mínútum síðar skoraði Cody Gakpo annað mark heimamanna. Þá átti Mohamed Salah frábæra fyrirgjöf sem lenti á kollinum á Gakpo. Markið var upphaflega dæmt af vegna rangstæðu en eftir að VAR herbergið skoðaði málið þá sást það bersýnilega að Hollendingurinn var ekki rangstæður og markið fékk réttilega að standa.
Á 83. mínútu kláraði Luis Díaz leikinn endanlega þegar hann skoraði þriðja mark Liverpool. Mohamed Salah átti þá fyrirgjöf frá hægri sem fór beint á Díaz. Díaz gerði vel í að stíga út Jonas Hofmann áður en hann tók við boltanum og lagði hann framhjá varnarlausum Hradecky í marki Leverkusen.
Á annari mínútu uppbótartíma innsiglaði Luis Díaz þrennu sína í kvöld. Darwin Nunez átti þá skot að marki sem fór af varnarmanni og beint fyrir fæturnar á Díaz sem kláraði færi sitt vel af stuttu færi og kórónaði hann þar frábæran seinni hálfleik sinn og Liverpool liðsins.