Portúgalski knattspyrnustjórinn Rúben Amorim sló á létta strengi á fréttamannafundi fyrir leik Portúgalsmeistara Sporting frá Lissabon gegn Englandsmeisturum Manchester City í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Amorim tekur við stjórnartaumunum hjá Manchester United næstkomandi mánudag og klárar því tvo leiki til viðbótar með Sporting, leik kvöldsins og leik í portúgölsku deildinni um næstu helgi.
„Ef úrslitin verða neikvæð minnka væntingarnar í minn garð. En ef við vinnum munu þeir [stuðningsmenn Man. United] halda að nýr Sir Alex Ferguson sé mættur á svæðið!“ sagði Amorim á léttum nótum.
Portúgalinn var meðal annars orðaður við stjórastarfið hjá Manchester City færi svo að Pep Guardiola láti af störfum.
„Orðrómar um Manchester City? Félagið mitt er Manchester United, það hefur verið augljós valkostur minn. Ég vildi semja við Man. United, það er félagið sem ég vildi,“ sagði hann.