„Guardiola ekki verri knattspyrnustjóri en ég“

Rúben Amorim tolleraður af leikmönnum Sporting eftir frækinn sigur á …
Rúben Amorim tolleraður af leikmönnum Sporting eftir frækinn sigur á Manchester City í síðasta heimaleik knattspyrnustjórans. AFP/Filipe Amorim

„Það var skrifað í skýin að þetta myndi fara svona,“ sagði Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Sporting frá Lissabon eftir magnaðan 4:1-sigur á Manchester City í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í gærkvöldi.

Um síðasta heimaleik Amorims við stjórnvölinn var að ræða áður en hann tekur við Manchester United eftir helgi og var Amorim fagnað innilega af leikmönnum og stuðningsmönnum Sporting.

Ekki hægt að spila svona

Á fréttamannafundi eftir leik sagði Portúgalinn að þrátt fyrir glæsileg úrslit myndi hann spila öðruvísi hjá Man. United.

„Ég hef áður sagt að það er ekki hægt að heimfæra einn raunveruleika yfir á annan. Hjá Manchester United er ekki hægt að spila nákvæmlega svona. Það er ekki í boði að spila svona varnarsinnað og við þurfum að aðlagast.

Augljóslega er mjög erfitt að vinna þetta lið og Pep Guardiola og hann er ekki verri knattspyrnustjóri en ég. Þetta verður allt annar heimur, allt annað lið. Við munum ekki fá sérlega langan tíma til þess að æfa og munum byrja á byrjunarreit.

Fólk má draga sínar eigin ályktanir en ég segi við fólkið í Manchester að þetta voru einstæð úrslit,“ sagði Amorim, sem á einn útileik í portúgölsku deildinni eftir við stjórnvölinn hjá Sporting.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert