Willum einn sá besti í deildinni

Willum er tilnefndur sem leikmaður októbermánaðar.
Willum er tilnefndur sem leikmaður októbermánaðar. Ljósmynd/Birmingham

Landsliðsmaðurinn Willum Þór Willumsson er einn fjögurra sem kemur til greina sem besti leikmaður ensku C-deildarinnar í fótbolta fyrir októbermánuð.

Willum hefur leikið afar vel með Birmingham síðan hann kom til félagsins frá Go Ahead Eagles í Hollandi í sumar. 

Miðjumaðurinn átti stóran þátt í sigrum á Huddersfield, Lincoln og Bolton í mánuðinum, skoraði tvö mörk og lagði upp eitt.

Birmingham er í öðru sæti C-deildarinnar með 29 stig, eins og topplið Wycombe. Alfons Sampsted leikur einnig með liðinu.

„Það vissu fáir hver hann var þegar hann kom, en Íslendingurinn er lykilmaður í baráttu Birmingham um að fara upp um deild. Hann er með silkimjúka boltameðferð, þrátt fyrir að vera stór og stæðilegur.

Hann er góður í að finna sér pláss og tíma og heldur ró sinni í færunum. Hann skoraði því tvö mörk og lagði upp eitt til viðbótar,“ segir m.a. í umfjöllun deildarinnar um Willum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert