Heimir segir ekkert vandamál til staðar

Heimir Hallgrímsson valdi Matt Doherty í nýjasta landsliðshóp sinn.
Heimir Hallgrímsson valdi Matt Doherty í nýjasta landsliðshóp sinn. Samsett mynd/Írska knattspyrnusambandið og AFP

Heimir Hallgrímsson, þjálfari karlaliðs Írlands í knattspyrnu, segir samband sitt við Matt Doherty vera gott þrátt fyrir að hafa ekki valið hann í leikmannahóp sinn í síðasta landsliðsverkefni. Doherty er í hópnum að þessu sinni.

Hann var ekki í leikmannahópnum fyrir síðasta verkefni í október og sagði Heimir þá á fréttamannafundi að bakvörðurinn, sem leikur með Wolves í ensku úrvalsdeildinni, hafi vitanlega ekki verið ánægður.

Doherty tjáði sig svo sjálfur í samtali við írska miðilinn The42 og sagðist „auðvitað“ eiga að vera í hópnum.

Indælis gaur

„Bara svo ég svari spurningunni um Matt þá höfum við alltaf sagt að við viljum ekki hafa bæði Matt og Séamus [Coleman] á sama tíma með framtíðina í huga.

Þar sem Séamus er ekki með og Shane Duffy ekki heldur, tveir mjög reyndir leikmenn, þá lék enginn vafi á því í mínum huga að Matt skyldi koma í þeirra stað,“ sagði Heimir á fréttamannafundi í gær.

Spurður hvernig samband þeirra væri sagði Eyjamaðurinn: „Það hefur verið mjög ánægjulegt. Hann er indælis gaur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert