Hópur hliðhollur Palestínu réðst á ungmennalið knattspyrnufélagsins Makkabi Berlín, sem er gyðingafélag, eftir leik liðsins við Schwarz-Weiß Neukölln í síðustu viku.
Telegraph segir frá.
Í umfjöllun þýska fjölmiðilsins Der Tagesspiegel kemur fram að ráðist var á leikmennina, sem eru 13 til 16 ára gamlir, með prikum og hnífum. Þá voru þeir einnig kallaðir illum nöfnum og skyrpt á þá.
Leikið var í Neukölln sem er hverfi þekkt fyrir fjölda íbúa frá Arabíu og Tyrklandi.
Schwarz-Weiss Neukölln sagði í yfirlýsingu að félagið ætli að bera kennsl á þá sem tóku þátt í árasinni og banna þá frá leikjum félagsins. „Svona atvik eiga ekki heima á fótboltavöllum almennt, hvað þá hjá okkur,“ stóð í yfirlýsingunni.
Martin Hikel, bæjarstjóri í Neukölin, tók undir með félaginu og fagnaði því að Schawrz-Weiss ætlaði að hefja rannsókn á málinu.
Meistaraflokkur Makkabi Berlín hefur hlotið lögregluvernd frá 7. október í fyrra, daginn sem stríðið fyrir botni miðjaðarhafs hófst með hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael.
Um síðustu helgi fékk hins vegar hvert einasta lið félagsins lögregluvernd í kjölfar árásarinnar í síðustu viku.