Mexíkó tapaði 2:0 gegn Hondúras í Þjóðadeild karla í knattspyrnu og bjórdós var kastað í Javier Aguirre, þjálfara Mexíkó, eftir leikinn.
Javier Aguirre er 65 ára gamall og tók við mexíkóska liðinu í júlí eftir slaka frammistöðu þess í Ameríkubikarnum í ár.
Dósinni var kastað úr stúkunni þegar hann gekk að Reinaldo Rueda, þjálfara Hondúras, til að þakka fyrir leikinn. Hann fékk dósina í höfuðið og var blóðugur eftir það en hafði lítið að segja um atvikið á blaðamannafundi eftir leikinn.
„Þeir áttu skilið að vinna, þeir voru betri en við í ákveðnum hlutum og ég get ekkert gert nema óska þeim til hamingju og reyna að hvetja liðið áfram.
Það þýðir ekkert að tala um það sem gerðist, þetta er fótbolti, ég ætla ekki að kvarta,“ sagði Aguirre.