Ben Davies, fyrirliði Wales í knattspyrnu karla, sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag fyrir leik liðsins gegn Íslandi í B-deild Þjóðadeildar Evrópu annað kvöld.
Davies er varnarmaður Tottenham Hotspur á Englandi og var á fundinum spurður hvað honum þætti um að liðsfélagi hans Rodrigo Bentancur hafi verið úrskurðaður í sjö leikja bann fyrir ummæli um fyrirliða þeirra Son Heung-Min.
„Ég las fréttirnar í morgun eins og allir aðrir geri ég ráð fyrir. Hjá Spurs líður okkur eins og málið hafi verið meðhöndlað innanhúss og nú hefur það sömuleiðis verið gert utan frá.
Sem lið og hópur höfum við hjá Tottenham nokkurn veginn dregið línu í sandinn og ákveðið að halda áfram. En þegar allt kemur til alls er mikilvægt að svona hlutir séu litnir alvarlegum augum, sem hefur verið gert,“ sagði Davies.
Bentancur sagði í viðtali í heimalandinu þegar hann var spurður spurningar sem tengdist Son að allir Asíubúar væru eins og hefur verið refsað með löngu leikbann og hárri sekt.