Heimir Hallgrímsson, þjálfari karlalandsliðs Írlands í knattspyrnu, var daufur í dálkinn eftir 5:0-tap fyrir Englandi í B-deild Þjóðadeildar Evrópu á Wembley í gærkvöldi.
Staðan var markalaus þegar Liam Scales fékk dæmda á sig vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks og fékk um leið sitt annað gula spjald og þar með rautt. Harry Kane skoraði úr vítaspyrnunni og í kjölfarið bætti England við tveimur mörkum til viðbótar á aðeins sex mínútum.
„Ég er eiginlega orðlaus. Þetta voru sex mínútur af eins konar brjálæði. Það var áfall að fá á sig vítaspyrnu og missa manna af velli. Við misstum líklega hausinn á því augnabliki sem leiddi til annars og þriðja marksins.
Þaðan af gátum við séð að við misstum líklega hausinn og gáfumst upp. Við höfum rætt þetta og ég hef sagt það áður að við eigum í vandræðum með sjálfstraust.
Þeir rúðu okkur augljóslega öllu sjálfstrausti eftir að við höfðum gert ýmsa hluti vel í fyrri hálfleik. Það er eiginlega ekki hægt að útskýra þetta. Þetta gerðist og var blaut tuska í andlit okkar, sem var erfitt að jafna sig á,“ sagði Heimir við fréttamenn eftir leikinn.
„Það er auðvelt að sitja eða standa á hliðarlínunni og gagnrýna. Þegar við komum inn í búningsklefann eftir fyrri hálfleikinn var leikurinn eins og við vildum hafa hann. Við vörðumst þétt og þeir fundu ekki leiðir til þess að spila í gegnum okkur.
Svo þegar við komum inn í síðari hálfleikinn þar sem við fáum snemma mark á okkur, missum leikmann af velli, fáum á okkur annað mark. Það er auðvelt að gagnrýna þegar maður horfir á þetta utan frá eða úr áhorfendastúkunni.
En sjáðu til, að vera með afsakanir eftir að þú tapar 5:0 er frekar aumkunarvert, að afsaka sig eða tala um eitthvað jákvætt. Það er vandræðalegt að tapa 5:0,“ bætti hann við.