Harry Kane, markahæsti leikmaður enska landsliðsins í knattspyrnu frá upphafi, varð þess heiðurs aðnjótandi að stytta af honum var opinberuð við íþróttamiðstöð Peter May í Austur-Lundúnum í dag.
Þar byrjaði Kane að sparka í bolta þegar hann var fimm ára gamall og lék með liði Ridgeway Rovers.
Kane, sem er 31 árs, hefur skorað 69 mörk í 103 A-landsleikjum.
„Þetta er satt að segja ansi sérstök tilfinning. Ég spilaði á þessum völlum þegar ég var fimm ára gamall og dreymdi um að spila fyrir England. Ég hef verið svo lánsamur að hafa náð því.
Vonandi labba strákarnir og stelpurnar framhjá þessari styttu og fyllast innblástri vegna sögu minnar og vegferðar, lífshlaups míns og því sem ég hef lagt á mig,“ sagði Kane í samtali við breska ríkisútvarpið.
Hann var þá spurður hvað þyrfti að gerast til þess að reist yrði stytta af honum fyrir utan þjóðarleikvang Englendinga, Wembley.
„Ég held að við þyrftum að vinna stórmót,“ sagði Kane hreinskilinn.
A real proud moment for me to go back to where my life in football began and unveil a statue. I hope it helps inspire the next generation to work hard and believe in themselves. 🙌📸 pic.twitter.com/rbAs8RrZgS
— Harry Kane (@HKane) November 18, 2024