Vill ekki sjá Neymar hjá félaginu

Neymar í leik með Al-Hilal.
Neymar í leik með Al-Hilal. AFP

Leila Pereira, forseti brasilíska knattspyrnufélagsins Palmeiras, skaut föstum skotum á knattspyrnumanninn Neymar, sem hefur verið orðaður við félagaskipti frá sádiarabíska félaginu Al-Hilal til brasilíska félagsins.

Neymar er sem stendur meiddur eftir að hafa rifið vöðva aftan í læri en hann hafði nýverið snúið aftur eftir eins árs fjarveru í kjölfar þess að slíta krossband í hné.

„Hann er frábær leikmaður en hann fer til Santos. Ég veit það ekki, þið ættuð að spyrja Santos. Hann myndi ekki koma hingað.

Ég myndi vilja fjárfesta í leikmanni sem gæti komið strax, sem gæti spilað strax á morgun tæki þjálfarinn ákvörðun um það,“ sagði Pereira í samtali við brasilíska miðilinn UOL.

Reiknar hún með því að fari Neymar frá Sádi-Arabíu fari hann til uppeldisfélags síns Santos. Pereira laumaði svo inn einu skoti til viðbótar þar sem henni finnst sóknarmaðurinn helst til meiðslagjarn.

„Palmeiras er ekki sjúkrahús. Ég samþykki ekki að kaupa leikmann sem gæti ekki spilað tafarlaust.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert