Wales vann riðilinn – Tyrkir í umspil

Kenan Yildiz fagnar marki sínu í Svartfjallalandi í kvöld.
Kenan Yildiz fagnar marki sínu í Svartfjallalandi í kvöld. AFP/Savo Prelevic

Wales fagnaði sigri í 4. riðli B-deildar Þjóðadeildar karla í knattspyrnu, riðli Íslands, en þetta varð ljóst eftir 4:1-sigur liðsins gegn Íslandi í Cardiff í kvöld.

Á sama tíma vann Svartfjallaland óvæntan sigur gegn Tyrklandi, 3:1, í Niksic í Svartfjallalandi þar sem Nikola Krstovic gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu. Kenan Yildiz skoraði eina mark Tyrkja á 37. mínútu þegar hann jafnaði metin í 1:1.

Með sigrinum tryggði Wales sér sæti í A-deild Þjóðadeildarinnar á næsta keppnistímabili en Tyrkland, sem hafnaði í öðru sætinu, fer í umspil um sæti í A-deildinni þar sem liðið mætir annaðhvort Skotlandi, Belgíu, Ungverjalandi eða Serbíu.

Ísland endaði í þriðja sæti riðilsins með 7 stig og mætir annaðhvort Slóvakíu, Kósovó, Búlgaríu eða Armeníu í umspili um sæti í B-deildinni. Svartfjallaland er fallið í C-deild.

Dregið verður í umspilið og átta liða úrslit keppninnar í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss á föstudaginn en umspilsleikirnir verða leiknir dagana 20. mars og 23. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka