Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, varð í kvöld áttunda konan sem kjörin er íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna, en í níunda skipti alls hlýtur kona viðurkenninguna.
Handknattleikskonan Sigríður Sigurðardóttir var fyrst kvenna kjörin árið 1964. Konur þurftu að bíða í 27 ár eftir næsta kjöri því sundkonan Ragnheiður Runólfsdóttir var kjörin árið 1991.
Vala Flosadóttir var kjörin árið 2000, eftir að hún vann sér inn bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í Sydney sama ár.
Knattspyrnukonan Margrét Lára Viðarsdóttir var kjörin sjö árum síðar og sundkonan Eygló Ósk Gústafsdóttir var íþróttamaður ársins 2015.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var kjörin íþróttamaður ársins 2017. Hún er enn eini kylfingurinn sem hefur hlotið viðurkenninguna.
Sara Björk Gunnarsdóttir, sem var landsliðsfyrirliði áður en Glódís tók við bandinu, var kjörin árið 2018 og aftur árið 2020.