Knattspyrnuþjálfarinn Heimir Hallgrímsson hefur átt afar viðburðaríkt ár en hann var ráðinn þjálfari karlaliðs Írlands í júlí, aðeins nokkrum dögum eftir að hann lét af störfum sem þjálfari karlaliðs Jamaíku.
Heimir, sem er 57 ára gamall, tók við þjálfun Jamaíku í september árið 2022 og náði mjög góðum árangri með liðið en Jamaíka komst í undanúrslit Gullbikarsins þar sem liðið tapaði fyrir Mexíkó í undanúrslitum keppninnar í Nevada í Bandaríkjunum í sumar.
Þá fór liðið alla leið í undanúrslit Þjóðadeildar Norður-Ameríku í ár þar sem Jamaíka tapaði fyrir Bandaríkjunum í Arlington, 3:1, eftir framlengdan leik, en Jamaíka hafnaði í þriðja sæti keppninnar eftir sigur gegn Panama í leik um bronsverðlaunin, 1:0. Með árangrinum í Þjóðadeildinni tryggði liðið sér einnig keppnisrétt í Suður-Ameríkubikarnum þar sem Jamaíka féll úr leik eftir riðlakeppnina og hætti Heimir með liðið stuttu síðar.
„Mér líður vel í þessu starfi hjá Írlandi,“ sagði Heimir í samtali við Morgunblaðið.
En hvernig er að stýra landsliðið þar sem það kemur strax upp umræða um það að það sé heitt undir þér þegar liðið tapar landsleik?
„Fótbolti á þessu getustigi snýst fyrst og fremst um það að vinna leiki og ná í úrslit. Alveg frá því að ég tók við liðinu hef ég bara fundið fyrir góðum stuðningi hjá stjórn knattspyrnusambandsins. Þegar allt kemur til alls voru það þeir sem ákváðu að ráða mig og það er því einnig mikið undir hjá þeim. Það er þannig í þessum blessaða fótbolta að þú sem þjálfari ert síðastur að finna það hvenær stuðningurinn er horfinn. Við vissum alltaf að Þjóðadeildin yrði erfið því andstæðingarnir voru góðir.
Framundan er svo undankeppni HM þar sem við vorum í þriðja styrkleikaflokki í drættinum líkt og Ísland. Við mætum sigurvegurum úr einvígi Portúgals og Danmörku og svo Ungverjalandi og Armeníu. Það gera sér allir grein fyrir því að riðillinn er erfiður og þessi undankeppni verður brekka. Það er raunsærra fyrir Írland að komast á EM, frekar en á HM, en ég er samt mjög bjartsýnn og held að við munum komast á HM í Bandaríkjunum. Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir komandi ári og vonandi getum við haldið áfram að sýna framfarir í hverjum leik.“