Landsliðsfyrirliðinn og knattspyrnukonan Glódís Perla Viggósdóttir átti frábært ár en var útnefnd íþróttamaður ársins 2024 af Samtökum íþróttafréttamanna við hátíðlega athöfn í Hörpu á laugardaginn. Þá varð hún Þýskalandsmeistari síðasta vor með félagsliði sínu Bayern München, þar sem hún er einnig fyrirliði.
Glódís Perla, sem er 29 ára gömul, var í lykilhluverki í varnarleik þýska liðsins og þá var hún einnig í lykilhlutverki hjá íslenska landsliðinu sem tryggði sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2025 með sögulegum sigri gegn Þýskalandi á Laugardalsvelli í júlí.
Þá varð hún í 22. sæti í Ballon d‘Or-kjörinu um besta knattspyrnufólk heims og var hún efst allra miðvarða í kjörinu en enginn Íslendingur hefur áður verið tilnefndur til verðlaunanna virtu sem France Football stendur fyrir ár hvert.
Gerir þú miklar kröfur til sjálfs þíns?
„Já ég geri það. Ég er með miklar og háar kröfur og kannski er maður aldrei fullkomlega sáttur með sjálfan sig, sama hvað. Það getur verið bæði gott og slæmt. Ég held að þessi hugsunarháttur hafi klárlega hjálpað mér á margan hátt og ég væri kannski ekki á þeim stað sem ég er á í dag ef ég gerði ekki svona miklar kröfur til sjálfrar mín.
Á sama tíma getur verið erfitt að njóta sín alltaf þegar þú finnur alltaf eitthvað sem dregur þig niður. Ég er samt alltaf að læra og mér finnst ég læra meira, eftir því sem ég eldist. Ég hef lært mjög mikið af fyrirliðabandinu og hlutverkinu sem því fylgir. Ég vona að ég hafi vaxið í hlutverkinu og að ég sé betri í því í dag.“